Auglýsing
„Strákarnir í liðinu eru gjörsamlega geggjaður, þetta er þéttur hópur, sem þekkist vel. Þeir hafa tekið á mót mér, borgarbarninu, með opnum örmum og boðið mig velkominn,“ segir framherjinn Viktor Jónsson við Skagafréttir. Viktor var markahæsti leikmaður Inkasso-deildarinnar á s.l. leiktíð með Þrótti úr Reykjavík en hann fær tækifæri til þess að sýna sig og sanna með ÍA í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.
Viktor skoraði 35 mörk í 39 leikjum fyrir Þrótt og hann kann því að skora mörk en það er fleira sem liggur vel fyrir hinum 24 ára gamla leikmanni. Viktor hefur á undanförnum misserum verið að „fikta“ við tónlistarsköpun með vini sínum. Og afraksturinn eru lög sem eru vinsæl á tónlistarveitum á borð við Spotify. Viktor og Reynir Haraldsson kalla sig „Venjulegir gaurar“ í tónlistarmennskunni.
„Tónlistaráhuginn hefur lengi verið til staðar en ég fór að fikta við að búa til tónlist s.l. sumar með vinnufélaga mínum sem heitir Reynir Haraldsson. Hann var læra hljóðblöndun í Liverpool á Englandi. Við ákváðum að prófa að gera eitthvað saman. Fyrsta lagið sem við kláruðum var Þjóðhátíðarlag sem við gerðum fyrir vinahópinn minn. Það var að sjálfsögðu bara grín. Við héldum áfram að þróa þetta og leika okkur. Við höfum fundið okkur þokkalega í þessu. Markmiðið er fyrst og fremst að hafa gaman að þessu. Ég hef ekkert verið að pæla í því að komast eitthvað lengra. Hæfileikarnir eru hjá Reyni. Hann er fáránlega hæfileikaríkur og núna þegar boltinn er farinn að rúlla munu stórir hlutir gerast hjá honum í framtíðinni um leið og hann fær það „credit“ og þá athygli sem hann á skilið,“ segir Viktor.
Undirbúningstímabilið er farið af stað hjá ÍA og segir Viktor að markmiðið sé að festa liðið í sessi í Pepsi-deildinni. Viktor á að baki 140 meistaraflokks leiki þar sem hann hefur í heildina skorað 68 mörk.
„Miðað við hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið þá er ég bjartsýnn. Það er hátt tempó á æfingum. Eitthvað sem ég hef ekki kynnst áður. Þrátt fyrir að hópurinn sé stór þá eru allir sem geta skilað gæðum á hverja æfingu og haldið tempóinu háu. Það eru spennandi tímar framundan hjá ÍA,“ segir Viktor Jónsson, fótbolta – og tónlistarmaður.
Auglýsing
Auglýsing