Auglýsing
Minnisvarði um fyrsta vitann á Akranesi er nú til staðar á Akurshól á Akranesi. Formleg athöfn fór fram í dag þar sem að kveikt var á vitanum.
Það eru Faxaflóahafnir sem eiga frumkvæðið að þessu verkefni en Akraneskaupstaður kemur einnig að verkefninu.
Í ár eru 100 ár eru liðin frá byggingu Gamla vitans svokallaða á Suðurflös á Breið og er minnisvarðinn á Akurshól reistur af því tilefni.
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, skrifaði eftirfarandi texta um verkefnið. Sædís Sigmundsdóttir hjá Akraneskaupstað kom einnig að ritun textans sem er byggður á samantekt Gunnlaugs Haraldssonar.
Teikning að minnisvarðanum er byggð á myndlistaverki Bjarna Þórs Bjarnasonar myndlistamanns á Akranesi og Hermann Bridde starfsmaður Faxaflóhafna sem vann teikninguna.
Faxaflóahafnir sáu um byggingu staursins og var það verktakinn Sf smiðir sem sáu um uppsetningu. Ljóskerið kom frá fyrirtækinu Jóhann Ólafsson & Co en um er að ræða Led perur sem geta m.a. breytt litum líkt og á miðbæjarreitnum Akratorgi á Akranesi.
Fyrstu vitar við Faxaflóa voru reistir eftir 1880 og voru það svokallaðir vörðuvitar eða fiskimannsvitar með einföldu ljóskeri til að lýsa sjófarendum leið. Fyrsti vísir að vita á Akranesi var ljósker á 7 metra háum staur sem reistur var inni á lóð bæjarins Teigakots, en hann stóð efst á Akurshól fyrir suðurenda götunnar Vitateigs.
Það var Björn Ólafsson (1857-1890) húsmaður í Oddsbæ sem átti hugmyndina um vitabyggingu á Akranesi og bar hana upp á fundi Æfingarfélagsins sem stofnað var árið 1882 og lét ýmis framfaramál til sín taka. Sigurður Jónsson (1843-1935) járnsmiður byggði mannvirkið í janúar árið 1890, en ekki var kveikt á ljóskerinu fyrr en rúmu ári seinna eða þann 1. mars 1891 vegna vangaveltna um rekstur vitans og hnattstöðu hans.
Fyrsti gæslumaður vitans, Bjarni Jörundsson smiður á Litlateig (1853-1901), hóf störf strax árið 1890 þrátt fyrir að ekki væri búið að kveikja á vitanum og gegndi hann því starfi í eitt ár. Magnús Magnússon Hólm húsmaður í Teigakoti, tók við af honum í febrúar árið 1891, en Magnús drukknaði í róðri þann 16. nóvember sama ár. Ekki er vitað hverjir gegndu vitavörslu næstu ár þar á eftir. Staurinn með ljóskerinu stóð á Akurshól þar til gamli vitinn á Breið var byggður á Suðurflös árið 1918.
Auglýsing
Auglýsing