Skaginn hf. og Þorgeir & Ellert hf. styrkja ÍA með myndarlegum hætti

Auglýsing



Fyrirtækin Skaginn hf., Þorgeir & Ellert hf. og starfsmenn þeirra hafa enn á ný sýnt íþróttaiðkun barna og unglinga á Akranesi mikla velvild með því að styðja ÍA um þrjár milljónir króna.

Á árinu 2018 var þremur milljónum úthlutað úr sjóði sem fyrirtækin lögðu fjármuni til og verður nú sama upphæð til skiptanna til að bæta barna- og unglingastarf íþróttahreyfinganna, með sérstakri áherslu á forvarnargildi íþróttaiðkunar.

Þetta kemur fram á vef ÍA. 

Stuðningurinn er ekki sérstaklega ætlaður ákveðnum aðildafélögum innan íþróttahreyfinganna en auglýst hefur verið eftir umsóknum frá aðildarfélögum ÍA í sjóðinn. Stuðningurinn er einungis ætlaður sem viðbót við núverandi barna- og unglingastarf og ekki ætlaður til frekari fjárfestinga innan íþróttahreyfinganna.

Hjá ÍA er starfandi nefnd sem fer yfir umsóknir og úthlutar fjármununum og er umsóknarfrestur til 31. jan. n.k.

Skaginn hf., Þorgeir & Ellert hf. hvetja sem flesta, bæði einstaklinga og lögaðila, að leggja verkefninu lið og þannig styðja við börn og ungmenni í sinni heimabyggð og má leggja frjáls framlög inn á eftirfarandi reikninga sem eingöngu eru ætlaðir til stuðnings við barna- og unglingastarf íþróttahreyfinganna:

Íþróttabandalag Akraness, kt. 670169-2199 – reikningsnr. 0552-14-350180

Íþróttabandalag Akraness þakkar Skaganum hf., Þorgeiri og Ellert hf. og starfsmönnum þeirra fyrir stuðninginn og þann stórhug fyrirtækin sýna. Stuðningurinn mun án efa bæta gæði og faglega vinnu í íþróttastarfinu á Akranesi og mun sérstaklega verða horft á forvarnargildi íþróttaiðkunar fyrir börn og ungmenni í bæjarfélaginu okkar.

Auglýsing



Auglýsing