Skagamaðurinn Kristinn Gauti Gunnarsson birti nýverið áhugavert myndband á Youtube. Kristinn, sem útskrifaðist nýverið úr Kvikmyndaskóla Íslands, setti saman myndband þar sem hann birtir eina sekúndu frá hverjum einasta degi úr viðburðaríku lífi hans á árinu 2018.
Kristinn Gauti skrifaði eftirfarandi texta á fésbókina.
Árið 2018 var mögulega besta og viðburðaríkasta ár lífs míns. Það byrjaði með bestu vinum mínum í Las Vegas, skömmu síðar fór ég til Kenía til að taka upp heimildarmynd, fór með fjölskyldunni í sjötugs afmæli afa á Grikklandi, og fór með vini mínum til Spánar í ágúst.
Ég kynntist mörgu frábæru fólki á árinu, eignaðist nýja vini og útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands í lok árs. Á hverjum degi 2018 tók ég upp eina sekúndu af því sem ég var að bralla og hef klippt það saman í 365 sekúndna vídeó.