Á að banna farsímanotkun í grunnskólum Akraness?

AuglýsingTöluverð umræða hefur verið um farsímanotkun nemenda í grunnskólum landsins á undanförnum misserum.

Skólayfirvöld á nokkrum stöðum á landinu hafa tekið þá ákvörðun að banna farsímanotkun alfarið á skólatíma.

Hér á Akranesi eru skiptar skoðanir um þetta mál líkt og á öðrum stöðum landsins.

En er eitthvað slíkt á döfinni á Akranesi, hefur þetta verið rætt eða er einhver önnur lausn í farvatninu?

Þessa spurningu fengu skólastjórarnir Arnbjörg Stefánsdóttir í Brekkubæjarskóla og Sigurður Arnar Sigurðsson í Grundaskóla frá Skagafréttum – og svör þeirra eru eftirfarandi:

Hver er þín skoðun á farsímanotkun nemenda í grunnskólum á Akranesi?

Arnbjörg Stefánsdóttir og Sigurður Arnar Sigurðsson – ekki er vitað hvort myndirnar voru teknar á farsíma:

Arnbjörg Stefánsdóttir – Skólastjóri Brekkubæjarskóla:


„Nei við höfum ekki rætt að taka upp bann við símum eða öðrum tækjum.

Fyrir nokkrum árum fannst mörgum af og frá að leyfa nemendum að vera með fartölvur í skólanum en núna teljast þær mikilvæg og sjálfsögð vinnutæki.

Símar í dag eru tæki og hægt að nýta á margvíslegan hátt.

Mikilvægt er að kenna nemendum
að nýta tækin til góðs

Það gilda reglur um notkun síma í skólanum og nemendur fara almennt eftir þeim.

Þessi kynslóð sem er nú í skóla verður með síma eða eitthvað sambærilegt alla ævina og því er mikilvægt að kenna þeim að nýta tækin til góðs.

Það eru margir kennarar sem nýta símana og tæknina á skapandi hátt. Að mínu mati flokkast það undir framsækið skólastarf og reynsluheimur nemandans nýttur til náms en ekki lokaður niðri í skúffu,“ segir Arnbjörg Stefánsdóttir í samtali við Skagafréttir.

Sigurður Arnar Sigurðsson – Skólastjóri Grundaskóla:

„Í Grundaskóla höfum við valið okkur þrjú gildi sem höfð eru að leiðarljósi í öllu skólastarfinu: Samvinna, traust og virðing. Gildin okkar endurspeglast í skólareglum sem eru fáar og einfaldar en þar er lögð áhersla á ábyrgð og skyldur allra hlutaðeigandi. Vegna aukinnar notkunar á ýmis konar snjalltækjum í skólasamfélaginu höfum við þó undirstrikað eftirfarandi verklagsreglur:

Snjalltæki eru ekki leyfð í frímínútum sem og matmálstímum í mötuneyti skólans

▪ Nemendum í 1.-6. bekk er heimilt að nota snjalltæki í skólastarfinu í samráði við kennara.

▪ Nemendum í 7.-10. bekk er heimilt að nota snjalltæki í skólanum og fá jafnframt aðgang að þráðlausu neti skólans á skólatíma.

▪ Nemendur þurfa leyfi kennara til að nota ofangreind tæki í kennslustundum.

▪ Snjalltæki eru ekki leyfð í frímínútum sem og matmálstímum í mötuneyti skólans.

Við förum fram á það að allir sýni nærgætni og virðingu í samskiptum bæði í daglegu skólastarfi sem og á Netinu og ýmsum samfélagsmiðlum. Ekki er við hæfi að birta myndir af einstaklingum á netsíðum án samþykkis þeirra og gætum þess að fara varlega í því sem við segjum á Netinu. Munum að vinna saman og sýna hvert öðru traust og virðingu,“ segir Sigurður Arnar í samtali við Skagafréttir.

AuglýsingAuglýsing