Skagamaðurinn Ágúst bjargaði Auði og fékk Lilju til að brosa á ný

AuglýsingSkagamaðurinn Ágúst Guðmundsson bjargaði málunum þegar „drama“ ársins átti sér stað í Þingholtunum 6. janúar.

Innikisan Auður lék aðalhlutverkið í þessu dramaverki en kisan er í eigu Lilju Aðalsteinsdóttur sem er 8 ára.

Lilja er með sterka tengingu á Akranes en móðir hennar, Ásdís Halla Bragadóttir, bjó lengi á Akranesi.

Ásdís Halla lýsir dramanu í Þingholtunum á fésbókarsíðu sinni. Hún er þakklát að búa í landi þar sem slökkviliðsmenn eru ekki bara hetjur sem bjarga fólki við erfiðar aðstæður heldur líka manneskjur með stórt hjarta sem bjarga dýrum í neyð.

„Fjölskyldan á varla til orð til að lýsa þakklæti sínu til C-vaktarinnar því erfitt er að hugsa til þess hvað hefði gerst ef aðstoðar þeirra hefði ekki notið við. “

DRAMA ársins 2019 átti sér stað á þrettándanum í Þingholtunum. Í þann mund sem fjölskyldan var að leggja af stað í 50 ára trúlofunarafmæli afa Braga og ömmu Bebbu áttuðum við okkur á því að innikisan Auður var ekki á vísum stað. Í fyrstu vorum við róleg og töldum að ekkert væri að óttast, hún væri líklega bara að fela sig, en þegar ég sá rifu á einum af þakgluggunum náði óttinn tökum á mér. Hafði kisa hugsanlega farið út um gluggann?

Ég opnaði gluggann betur og leit út. Allt í kring lýstu flugeldar upp himinhvolfið en ekki sá ég Auði. Fjórum hæðum neðar blasti grjóthörð stéttin við mér. Gat verið að hún hefði hoppað út um gluggann, runnið niður af bröttu þakinu og lent á stéttinni? Ef svo var gat það ekki hafa endað vel því fallið er mjög hátt. Ég deildi grunsemdum mínum með Aðalsteini og í sameiningu fórum við út að leita. Í fyrstu urðum við ekkert vör við hana en eftir smá stund heyrðum við örvæntingarfullt mjálm en við áttuðum okkur ekki alveg strax á því hvaðan það kom. Skömmu síðar heyrðum við betur í kisu, litum upp og sáum litla greyið hanga hálfa fram af þakbrúninni á mjóum kanti sem þar er. Ekki var nokkur leið fyrir okkur að nálgast hana og útlokað var fyrir hana að komast niður af sjálfsdáðum.
Nú voru góð ráð dýr!

Það eina sem okkur datt í hug var að hringja í 112 og kanna hvort slökkviliðið gæti komið. Ekki leið á löngu þar til snillingarnir á C vaktinni voru mættir í fullum skrúða. Hratt en örugglega skipulögðu þeir björgunaraðgerðir og fóru markvisst en ofur varlega að kisu til að hrella hana ekki – enda mátti allt eins búast við því að þessi fyrrverandi villiköttur væri ekki til í að láta ókunnugan mann fanga sig.

Vegna aðstæðna komst körfubílinn ekki að húsinu en þess í stað var dreginn fram langur stigi sem lagður var upp að veggnum. Spennan magnaðist þegar slökkviliðsmaðurinn fikraði sig upp stigann og þegar hann kom að kisu, sem enn hékk á brúninni, sýndi hún fullan samstarfsvilja þegar hann tók hana í fangið. Þakklát hvíldi Auður í öruggum höndum ofurhetjunnar alla leið niður á stétt.

Það fyrsta sem kom upp í hugann var hve dásamlegt það er að búa í landi þar sem slökkviliðsmenn eru ekki bara hetjur sem bjarga fólki við erfiðar aðstæður heldur líka manneskjur með stórt hjarta sem bjarga dýrum í neyð. Sjálfir segjast þeir reyna að bregðast við þó að um sé að ræða björgun ferfættra dýra enda sé það fín leið fyrir þá til að halda sér í æfingu fyrir umfangsmeiri atburði. Fjölskyldan á varla til orð til að lýsa þakklæti sínu til C-vaktarinnar því erfitt er að hugsa til þess hvað hefði gerst ef aðstoðar þeirra hefði ekki notið við.

Af Auði er það helst að frétta að hún hefur jafnað sig að fullu enda var farið um hana mjúkum höndum og af kattareigandanum, Lilju 8 ára, er það helst að frétta að hún er að hugsa um að verða slökkviliðskona sem bjargar dýrum þegar hún verður stór.

Við sendum okkar bestu kveðjur til allra í Slökkviliðinu með óskum um gleðilegt ár og gæfu í mikilvægum störfum.

AuglýsingAuglýsing