Pistill: „Verum skynsöm – snúum við“

Auglýsing



Pistill: Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, skrifar.

Góð regla sem allir sem stunda útivist og fjallgöngur þurfa að eiga og kunna að nota er reglan að snúa við, hætta för og halda heim á leið.

Auðvitað er ánægjulegt að komast á tindinn eða þangað sem í upphafi var stefnt en það á ekki að vera markmiðið með ferðinni. Markmiðið á að vera að koma heil heim, njóta ferðarinnar.

Stundum er sagt að slys geri ekki boð á undan sér. Rannsóknir á slysum í fjalllendi sýna hins vegar að viðvörunarbjöllur hringja stundum á ákveðnum stöðum á leiðinni og þá er mikilvægt að hlusta og bregðast við.

Dæmi um slíkar viðvörunarbjöllur eru t.d. þegar maður er seinn af stað, gleymdi símanum, talstöðinni, gps tækinu eða öðrum búnaði. Veðurspáin er vond, jafnvel versnandi. Ég er illa fyrir kallaður, hálf slappur. Aðstæður er slæmar af einhverjum ástæðum.

Ég er ekki alveg viss um hvar leiðin liggur. Þannig má lengi telja. Þetta eru allt viðvörunarbjöllur sem hver og ein getur verið næg ástæða til snúa við, hætta för og halda heim á leið.

Góður undirbúningur er mikilvægur fyrir hverja ferð. Allur öryggisbúnaður og nesti til ferðarinnar er til staðar. Ég þekki leiðina og veit hverjar eru aðstæður, hef kynnt mér veðurspá, skilið eftir ferðaáætlun og veit að ferðafélagar mínir eru vel undirbúnir. Mikilvægt er að vera ekki einn á ferð og þó maður vilji stundum vera einn með sjáflum sér þá má finna ferðafélaga sem gefa slíkt svigrúm. Best er að vera aldrei færri en þrjú á ferð til fjalla eða utan byggðar.

Góður undirbúningur er

mikilvægur fyrir hverja ferð

Helstu hættur í vetrarferðamennsku eru meðal annars; hætta á að hrasa, renna, hrapa, hætta á að villast, týnast, verða blautur, kaldur, hætta á að falla í gegnum ís á vatni, hætta á að lenda í steinkasti, snjóflóði, aurskriðu, hætta á að lenda í aðstæðum þar sem maður er vanbúinn, hætta á að ofmeta sjálfan sig og eigin getu, hætta á að lenda í ofþornum, næringarskorti.

Um allar þessar hættur þarf hver ferðamaður að vera meðvitaður og um leið undir það búinn að lenda í slíkum aðstæðum. Það er sannarlega gaman að ferðast um íslenska náttúru þegar allt gengur eins í sögu. Um leið er ömurlegt að lenda í aðstæðum þar sem þú hefur ekki lengur stjórn á eigin öryggi.

Það er oft auðveldara að halda áfram en að taka ákvörðunina að snúa við. Það þarf hugrekki og aga til að taka slíka ákvörðun en oftast er það þannig að um leið og hún hefur verið tekin að þá líður manni betur og finnur að ákvörðunin var rétt.

Góða ferð og komum heil heim.

Páll Guðmundsson
Framkvæmdastjóri FÍ

Heimasíða FÍ:

Auglýsing



Auglýsing