Pistill: Vitaverðir Akraness

AuglýsingPistill eftir Gísla Gíslason, áhugamann um vitaverði

Hann Hilmar Sigvaldason, vitavörður er athyglisverð persóna. Brosmildur, greiðvikinn, hugmyndaríkur og fylginn sér. Honum datt sem sagt í hug fyrir nokkrum árum að taka vitana á Breiðinni í fóstur, haldinn þeirri hugarflugu að vitarnir gætu orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Framan af fannst mörgum þetta í besta falli broslegt ferðalag, enda enginn spámaður í eigin föðurlandi. Auralaus með þessa hugmynd í farteskinu þraukaði Hilmar, hamaðist á samfélagsmiðlunum þannig að árangur varð loks af harkinu. Listamenn fóru að sýna verk sín í nýja vitanum og tónlistarmenn uppgötvuðu að hljómburður í vitanum er einstakur.

Nú brosir vitavörðurinn enn breiðar eftir að vitarnir eru augljóslega orðnir eitt megin aðdráttarafl túrista á Skagann.

Bærinn hefur lagt sitt að mörkum og vill gera betur á Breiðinni á meðan vitavörðurinn ungar út mýgrút tillagna – raunhæfum í bland við draumkenndar.

Spurðu ekki að því hvað bjæjarfélagið geti gert fyrir þig heldur hvað þú getir gert fyrir Akranes.

Í ferðalagi Hilmars vitavarðar eru nokkur leiðarljós.

Í fyrsta lagi að sérhver íbúi á Akranesi er vitavörður. Hvert handtak sem hinn almenni íbúi leggur til atvinnu- og samfélagsverkefna skilar árangri. Þetta þekkjum við í fjölbreyttu félagslífi á Akranesi, en það er alltaf þörf á fleiri verkfúsum höndum.

Í öðru lagi þá skiptir máli að hafa sýn á hvað geti verið samfélaginu til heilla og þó svo að skoðanir séu skiptar þá er meira um vert „að veifa röngu tré en öngu“.

Í þriðja lagi er þrautseigjan mikilvæg. Ef fyrir hendi er áætlun þá þarf þrautseigju og þolinmæði til að koma henni til framkvæmda. En mest er um vert að fylgja planinu og stundum getur það tekið tímann sinn. Eflaust eru fleiri leiðarljós í aðferðafræði vitavarðarins, en framangreind þrenning finnst mér kjarni málsins.

Hilmar Sigvaldason.

Á síðustu áratugum eigum við dæmi um vitaverði sem komu mikilvægum verkefnum á koppinn m.a. í samstarfi við bæjarstjórn. Til dæmis má nefna íþróttahúsið á Jaðarsbökkum, golfvöllinn að Görðum, æfingasvæðið austan Akraneshallar, aðstöðu hestamanna í Æðarodda, skógræktina í Klapparholti, Aggapall og fleiri verkefni mætti nefna. Þetta eru dæmi um hvernig áhugafólk getur auðgað bæjarfélagið með framlagi sínu og áhuga. Með hóflegri aðstoð bæjarsjóðs er nefnilega hægt að spinna þráð sem fyrr en varir verður að fallegri flík. Við eigum þess vegna að vera á vaktinni fyrir verkefnum þar sem virkja má áræðni, kraft og áhuga bæjarbúa.

Þetta eru dæmi um hvernig áhugafólk getur auðgað bæjarfélagið með framlagi sínu og áhuga.

Starfið er margt og verkefnin áfram fyrir hendi. Við hafnarsvæðið bíða hús eftir fjölbreyttri starfsemi og þeir sem hafa ekki trú á að hafsækin ferðaþjónusta geti orðið varanleg starfsemi á Akranesi ættu að hugsa til vitavarðarins. Á Breiðinni eru áfram verkefni og hús sem áhugavert væri að sjá glæðast nýju lífi og á Sólmundarhöfða er Árnahús, sem þarfnast umhyggju. Við erum öll vitaverðir og ef við höfum plan og þrautsegju þá náum við árangri.

Við erum öll vitaverðir og ef við höfum plan og þrautsegju þá náum við árangri.

Það er augljóst að „bærinn“ verður aldrei sá aðili sem annast alla hluti, þótt vissulega skipti hlutverk hans miklu í að hlúa að góðum hugmyndum. Ekki skiptir síður máli að þeir sem burði hafa til hafi trú á fjárfestingum í bæjarfélaginu og stuðli þannig að vexti og viðgangi Akraness. Það hefur einkennt sögu bæjarins á liðnum áratugum að atvinnulífið hefur treyst á stór og mannfrek fyrirtæki til að drífa áfram vöxt samfélagsins, en jafn ágætar og nauðsynlegar slíkar lausnir geta verið, þá er enn sem fyrr þörf fyrir smærri lausnir, sem tryggja þurfa þá fjölbreytni sem hverju samfélagi er nauðsyn.

Framangreint má ef til vill draga saman í ákall til vitavarða á Akranesi og staðfæra orð John F. Kennedy: Spurðu ekki að því hvað bæjarfélagið geti gert fyrir þig heldur hvað þú getir gert fyrir Akranes.

Gísli Gíslason,
Áhugamaður um vitaverði.
Þessi pistill birtist fyrst í nóvember árið 2016 á skagafrettir.is

Gísli Gíslason.
Gísli Gíslason.

AuglýsingAuglýsing