Hvað er Skagamaðurinn Jakob Þór að prjóna í Ófærð?

Auglýsing



Spennuþáttaröðin Ófærð hefur á undanförnum vikum verið ofarlega á forgangslista Íslendinga á öllum aldri.

Þáttaröðin er með gríðarlegt áhorf og vinsælt sjónvarpsefni.

Skagamaðurinn Jakob Þór Einarsson kom við sögu í 4. þættinum sem sýndur var í gær.

Hlutverk Jakobs Þórs er enn sem komið er ekki stórt en hann leikur verslunarstjóra í matvörubúð – sem dundar sér við að prjóna í vinnutímanum.

Eins og áður segir var hlutverk Jakobs Þórs ekki mjög fyrirferðarmikið en það verður spennandi að fylgjast með framvindunni. Jakob Þór hefur í gegnum tíðina leikið stór hlutverk í íslenskum bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Má þar nefna kvikmyndirnar Óðal feðranna og Hrafnin flýgur. Hann hefur einnig komið talsetningu á gríðarlegu magni af barnaefni sem sýnt hefur verið í sjónvarpi. Má þar nefna að Jakob Þór er röddin á bak við Póstinn Pál.

Það er aldrei að vita að verslunarstjórinn sem hann leikur hafi eitthvað að gera með þá hryllilegu atburði sem hafa átt sér stað í friðsæla þorpinu norður í landi. Hann er kannski með eitthvað nýtt á prjónunum?

Stóra spurningin sem brennur á okkur Skagamönnum er hvað er verslunarstjórinn að prjóna í vinnutímanum?

Lopavettlinga, trefil, peysu eða sokka?  Þeirri spurningu hlýtur að verða svarað í næstu þáttum Ófærðar.

Hvað er Jakob Þór með á prjónunum í Ófærð?

Auglýsing



Auglýsing