Auglýsing
Íslenskir unglingar eru daprari en áður, samkvæmt nýrri rannsókn sem Skagamaðurinn Ársæll Már Arnarsson stýrði. Frá þessu er greint í frétt á RÚV.
Um fjörutíu prósent nemenda í 10. bekk fundu fyrir depurð vikulega eða oftar. Ársæll Már telur skjátíma hafa mikil áhrif. Einungis í Svíþjóð líður unglingum verr. Depurð meiri en hefur verið
Rannsókn á heilsu og lífskjörum unglinga er gerð í 44 Evrópulöndum á fjögurra ára fresti. Ársæll Arnarsson, prófessor og rannsóknastjóri segir að þróun á líðan unglinga hér á landi sé slæm, marktæk aukning sé á kvíða og depurð unglinga á milli ára.
„Okkar niðurstaða er sú að depurð meðal íslenskra unglinga er meiri nú heldur en hún hefur verið. Við höfum aldrei séð jafn háar tölur eins og núna. Þetta er mjög algengt á Norðurlöndunum, Svíar eru kannski í aðeins verri málum heldur en við,“ segir Ársæll.
Um helmingur í vandræðum með svefn
Tæplega helmingur unglinga á í vandræðum með svefn. Ársæll telur að svefnörðugleikar haldist í hendur við depurð.
„Svo má alltaf velta fyrir sér hvað það er sem veldur. Það er auðvitað skjánotkun sem er nærtækt svar, vissulega hefur hún mikil áhrif, þau fara seinna sofa. Þau eru æstari þegar þau fara að sofa vegna þess að þau hafa verið að spila leiki og svo framvegis,“ segir Ársæll. „En það eru auðvitað aðrir þættir líka. Það er auðvitað mjög flókið að vera unglingur. Við þurfum að takast á við fullt af nýjum hlutum. Það eru flókin tengsl. Það auðvitað streituvaldandi líka. Ástæðan er ekki bara skjátíminn en við höfum áhyggjur af þessu,“ bætir Ársæll við.
Ársæll er fæddur árið 1968 og ólst upp á Akranesi. Foreldrar hans eru Guðný Ársælsdóttir, fyrrum verslunarstjóri ÁTVR á Akranesi og Arnar Sigurðsson.
Auglýsing
Auglýsing