Arkitekt og listakona – Steinunn Eik hefur upplifað mögnuð ævintýri

Auglýsing„Ég er þakklát fyrir það bakland sem ég hafði á Akranesi sem barn og unglingur. Það er gott að alast upp á Akranes og ungt fólk fær tækifæri að upplifa margt. Boðleiðir eru stuttar og hlutunum er bara reddað ef eitthvað vantar. Mér finnst alltaf gott að koma heim á „Skagann“ eftir að hafa búið lengi erlendis. Endurnýja kynnin við náttúruperlur á borð við Langasand og Akrafjall,“ segir Steinunn Eik Egilsdóttir arkitekt og listakona við Skagafréttir.

Steinunn Eik er flutt heim til Íslands á ný og er ýmist á Akranesi og Reykjavík en framundan eru skemmtileg verkefni.

„Ég fæ að taka þátt áhugaverðum hönnunarverkefnum hjá Arkís og ég er einnig spennt að opna listasýninguna mína FROST föstudaginn,“ segir Steinunn en sýningin verður í Listasal Mosfellsbæjar.

„Það er öðru vísi og skemmtileg áskorun að halda eigin listasýningu og í raun mjög persónulegt, þetta er alveg ný upplifun fyrir mig.“

Steinunn er fædd og uppalinn á Akranesi og stundaði nám í Grundaskóla og FVA. Þótt hún sé aðeins þrítug að aldri hefur Skagakonan upplifað gríðarlega margt spennandi í námi sínu og vinnu.

„Ég var í 3 ½ ár í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og ég var mjög virk í félagslífinu. Það var yndislegur tími.“

Árið 2011 lauk Steinunn BA gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands 2011.

„Það var mjög rólegt í þessum bransa þegar ég útskrifaðist. Ég var heppinn að fá vinnu á lítilli stofu úti á Granda í Reykjavík. Argos Arkitektastofu Grétars og Stefáns.

Ég segi alltaf að þeir félagar hafi alið mig svolítið upp sem ungan arkitekt, en með þeim vann ég við uppgerð og breytingar friðaðra húsa.

Á svipuðum tíma tók ég einnig þátt í stofnun og framkvæmd rannsóknarverkefnisins Eyðibýli á Íslandi, þar sem við skrásettum í máli og myndum öll tóm hús í sveitum landsins á þremur sumrum.“

Steinunn Eik hefur verið á faraldsfæti undanfarin ár en árið 2012 flutti hún tll Englands og það var aðeins byrjunin á heilmiklu ævintýri.

„Ég lauk meistaragráðu í arkitektúr frá Oxford Brookes háskóla árið 2014. Síðan þá hef ég unnið til skiptis í Englandi og Vestur Afríku, með búsetu í Ghana í Afríku.

Í Ghana fékkst ég við ýmis hönnunar- og rannsóknarverkefni í tengslum við byggingar og búsetumynstur. Ég tók þátt í hönnun barnaskóla, skipulagningu hönnunarráðstefna og vinnu við flóðavarnir í fjölmennu höfuðborginni Accra.

Í þeirri borg deyr fólk þegar rignir sökum þess að illa byggð hús hrynja ofan á fólkið. Svona staðreyndir eru þyngri en tárum taki og eru bresku samtökin „Arkitektar án landamæra“ með dýrmæta vinnu í gangi í mörgum þróunarlöndum.

Um mitt ár 2016 flutti ég svo aftur til Englands og bjó þá við suðurströndina, í litlum sögulegum bæ, Arundel.

Þar tóku við allt öðru vísi verkefni en ég hafði fengist við í Vestur-Afríku og í um tvö ár hannaði ég risastór sveitaheimili og glæsivillur fyrir mjög efnamikla Breta.

Á sama tíma bætti ég við mig gráðu í verkefnastjórnun og samningalögfræði við University of Westminster. Ég nýflutt aftur til Íslands eftir 6 ára fjarveru og hef hafið störf hjá Arkís arkitektum.“

Eins og fram kemur hér að ofan hefur Steinunn Eik upplifað margt á undanförnum árum og hún telur sig vera heppna að fá slík tækifæri – en mikil vinnusemi hefur skilað henni á þessa braut.

„Ég hef ferðast mjög víða í gegnum nám og störf og hef verið heppinn, en ég hef líka lagt mikið á mig til að skapa þau tækifæri sem mér hafa gefist.

Verkefnin sem ég hef tekið þátt í bæði á Grænlandi, Hollandi, Palestínu og Vestur-Afríku eiga það öll sameiginlegt að vinna með mannlega þáttinn í arkitektúr.

Ég ætlaði mér alltaf að verða arkitekt síðan ég man eftir mér og þegar ég var yngri voru það form, litir og blæbrigði í byggingarlist sem vöktu hjá mér athygli og senn hamingju.

Í dag er það hins vegar það sem arkitektúr getur gert fyrir fólk sem veitir mér hvað mesta ánægju í gegnum störf mín. Þetta getur verið allt frá því að teikna hið fullkomna heimili í kringum þarfir fjölskyldu, yfir í það að hanna meðferðarkjarna fyrir langveik börn í Englandi eða stóra fjölskylduvæna saumastofu sem styður að atvinnuöryggi og sjálfstæði kvenna í Ghana.“

Meistaraverkefni Steinunnar frá árinu 2014 gerði hún í litlum bæ í Palestínu, Beit Iksa.

„Verkefnið var tvíþætt, annars vegar vann ég í hópi nemenda með íbúum þorpsins að gerð vatnshreinsikerfis til vökvunar á ólívuökrum. En til stendur að skilja þetta litla bændasamfélag frá ökrum sínum með miklum aðskilnaðarmúr Ísraelsmanna.

Snemma í ferðinni tók ég eftir því að flest almenningsrými voru undirlögð af karlmönnum og konur höfðu fáa staði til að koma saman á. Í þorpinu var t.d. aðeins einn almennur samkomustaður, kaffihús og það einungis ætlað karlmönnum.

Ég náði því í gegn að fá að fara þar inn í rannsóknartilgangi með því að þykjast vera gift egypskum bekkjarbróður mínum.

Ég náði því í gegn að fá að fara þar inn í rannsóknartilgangi með því að þykjast vera gift egypskum bekkjarbróður mínum.

Ég notaði þessa miklu kynjaskiptingu sem útgangspunkt í mínu einstaklings verkefni og vann náið með konum í þorpinu að hönnun griðarstaða þar sem þær gætu komið saman; borðað, dansað, sungið og notið sín.

Núna fjórum árum síðar er ég enn í sambandi við sumar þessara kvenna sem veittu mér mikinn innblástur – svo elduðu þær líka einn besta mat sem ég hef smakkað.“

Arkitekt og listamaður hvar byrjaði sá áhugi?

„Ég hef í raun alltaf verið skapandi og hef teiknað frá því ég man eftir mér. Það voru þó engir arkitektar né listamenn í kringum mig beint þegar ég var að alast upp.

Byggingarlist er auðvitað mjög skapandi hönnunargrein og á margt sameiginlegt með myndlistinni.

Ég teiknaði mjög mikið sem barn, þótt ég hafi verið hálfblind til að verða fimm ára aldurs þar sem ekki var vitað ég þyrfti mjög sterk gleraugu. Af þeim sökum eru allar mínar barnateikningar illskiljanlegar. Ég fékk síðan gleraugu og hef teiknað síðan. Það hafði lengi blundað í mér þrá til að skapa á aðeins frjálsari máta en mín daglega vinna sem arkitekt.

Ég teiknaði mjög mikið sem barn, þótt ég hafi verið hálfblind til að verða fimm ára aldurs

Það var svo þegar ég flutti til Arundel í Englandi, þar sem ég bjó í fallegum þjóðgarði og þekkti fáa, sem ég ákvað að taka upp penslana. Ég hafði allt árið á undan búið í miðborg Accra í Ghana og var orðin það vön hávaða að ég gat ekki sofnað án þess að vera með eyrnatappa. Svo var ég allt í einu flutt innan um breska lávarða og villt dádýr í fallegri sveit, búandi í steinhlöðnu eldgömlu húsi sem ég leigði af hertoganum af Norfolk sem bjó í kastala skammt frá. Það var svo friðsælt að ég vissi ekki hvernig ég ætti að fóta mig. Þá gerðist það. Ég fékk útrás í abstrakt myndlist, sem í dag er mín helsta leið til að róa hugann.

Ég sótti nokkra opna myndlistartíma hjá Sandy Hales, nágrannakonu minni sem er listakona á eftirlaunaaldri. Hún kom mér af stað og ég hef á seinustu tveimur árum þróað minn stíl og tækni í myndlistinni. En það sem ég kann svo vel að meta við myndlistina sem tjáningarform er hversu frjáls hún er samanborið við t.d. hönnunargreinar.

 

Ættartréð:
Foreldrar: Egill Steinar Gíslason (62), húsasmíðameistari, Borghildur Birgisdóttir (58), kennari. Systkini: Kristín Edda Egilsdóttir (28), Dagný Björk Egilsdóttir (26), Ingileif Egilsdóttir (23), Aldís Helga Egilsdóttir (21) og Ægir Sölvi Egilsson (18).

Í Listasal Mosfellsbæjar hefst nýtt sýningarár á ferskum nótum með FROST, fyrstu myndlistarsýningu arkitektsins Steinunnar Eikar Egilsdóttur.

Steinunn Eik, sem er fædd árið 1988, er óhrædd við nýjar áskoranir og hefur sinnt ýmsum fjölbreyttum verkefnum, m.a. á Grænlandi, í Palestínu og Vestur-Afríku en þar bjó hún í þrjú ár.

Steinunn Eik leitar í abstraktmyndlist sem mótvægi við nákvæmni og strangleika arkitektúrsins og hefur í gegnum tilraunir sínar með akrílmálningu mótað sinn ákveðna stíl.

Verk Steinunnar Eikar eru í senn einstæð og keimlík, frjálsleg og öguð, stílhrein og ósamstæð. Þau bera einkenni ungs listamanns sem málar af áráttu og leikgleði.

Sýningin FROST verður opnuð föstudaginn 18. janúar kl. 16-18 og stendur til föstudagsins 15. febrúar. Opið er á virkum dögum kl. 12-18 og á laugardögum kl. 12-16. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

AuglýsingAuglýsing