Arnór mun bæta sig enn frekar í norskunni – samdi við Lilleström

Auglýsing



Arnór Smárason (30 ára) hefur ákveðið að dvelja áfram í Lilleström í Noregi og leika þar í efstu deild með samnefndu liði. Skagamaðurinn skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Mörg lið höfðu áhuga á að semja við hinn reynslumikla leikmann sem var samningslaus eftir að tímabilinu lauk í Noregi.

Arnór kom til Lilleström um mitt s.l. sumar á lánssamning frá sænska liðinu Hammarby í Stokkhólmi. Hann skoraði sjö mörk í 13 leikjum fyrir Lilleström og vakti mikla lukku hjá stuðningsmönnum liðsins.

„Ég er fyrst og fremst glaður að vera hér í dag. Það hefur mikið gengið á undanfarnar vikur – en Lilleström var alltaf ofarlega í mínum huga en ég hafði nokkra valmöguleika. Ég hef trú á því sem forráðamenn liðsins ætla sér að gera á næstu misserum og ég hlakka til að fá að taka þátt í því,“ sagði Arnór m.a. á fundi með fréttamönnum í dag.

Lilleström er sjötta erlenda liðið sem Arnór leikur með. Hann hóf ferilinn sem atvinnumaður í Hollandi hjá Heerenveen. Frá þeim tíma hefur hann leikið með Esbjerg í Danmörku, Helsinborg í Svíþjóð, Torpedo í Rússland og Hammarby í Svíþjóð.

Arnór á að baki 23 A-landsleiki en hann fór með liðinu í æfingaferð til Katar á dögunum.

 

Auglýsing



Auglýsing