Hvaða möguleikar eru á Akranesi í þróun þéttbýlis? Áhugaverð sýning opnar í dag

AuglýsingÍ dag verður áhugaverð sýning opnuð í verslunarmiðstöðinni að Smiðjuvöllum 2.

Þar ætla nemendur við Landbúnaðarháskóla Íslands og Listaháskóla Íslands í samstarfi við Akraneskaupstað að sýna hvaða möguleikar eru á Akranesi hvað varðar þróun þéttbýlisins.

Um er að ræða brot af verkum sem tengjast öll Akranesi og unnin voru af 3. árs nemum, annars vegar nemendum í umhverfisskipulagi við LbhÍ og hins vegar nemendum í arkitektúr við LhÍ. Verkin eru framsýn, djörf og metnaðarfull og til þess fallin að fá íbúa bæjarins til að sjá hina ýmsu möguleika í þróun þéttbýlisins

Eins og áður segir er sýningin í verslunarmiðstöðinni að Smiðjuvöllum 32 fimmtudaginn 31. janúar kl. 17:00.

Sýningin mun standa opin 1. til 14. febrúar frá kl. 12 til 18.

Almennt um viðfangsefni nemendanna í Listaháskóla Íslands:

Akranes // Jaðar – (þétt)býli

Viðfangsefni haustannar hjá 3. árs nemum í arkitektúr við Listaháskóla Íslands var m.a. að rannsaka þau áhrif og skilgreina ný tækifæri sem verða til við umpólun á grundvallarstoðum samfélags. Akranes var valinn sem viðfangsefni verkefnisins, verandi lifandi og fjölbreytt samfélag á útjaðri þéttbýlissvæðis höfuðborgarinnar. Rótgróið sveitarfélag sem á sér kraftmikla iðnaðarsögu, en stendur nú á tímamótum.

Akranes hefur löngum verið skilgreint sem útgerðarbær, en hýsti auk þess sementsverksmiðju sem hafði afgerandi áhrif á samfélagsgerð, efnahagsafkomu og efniskennd bæjarins. Nú, við niðurrif sementsverksmiðjunnar falla til um 15.000 rúmmetrar af steypu og 2.000 tonn af stáli – hráefnismassi í tilvistarkreppu.

Akranes stendur því á tímamótum sem holdgerist meðal annars í stórskornu niðurrifi sementsverksmiðjunnar. Á slíkum tímamótum eru tækifæri til endurskilgreiningar. Tækifæri til að blanda saman ólíkum þáttum með það fyrir augum að þróa nýja eiginleika, kafa dýpra og finna hið óvænta.

Almennt um viðfangsefni nemendanna í Landbúnaðarháskólans Íslands
Sementsreiturinn á Akranesi

Arkitektúr og skipulag er námskeið hjá þriðja árs nemum á Umhverfisskipulagsbraut við Landbúnaðarháskóla Íslands. Námskeiðið byggist á því að nemendur kynnist hinum þverfaglegu þáttum sem unnið er með við gerð deili- og rammaskipulags. Nemendur vinna að einu raunverulegu verkefni yfir alla önnina og var verkefnið í ár hönnunartillaga fyrir Sementsreitinn á Akranesi.

Nálgun nemenda byggðist fyrst upp á því að finna staðarandann á svæðinu þar sem þau nýttu myndbandstöku til miðlunar. Þá var gerð skráning á legu svæðisins og greining þar sem meðal annars var rýnt í aðalskipulagið. Úr því komu einskonar niðurstöður með áskorunum og tækifærum fyrir svæðið. Þriðji hlutinn var hugmyndavinna sem er rökstudd með fyrri þáttum. Áfram fengu svo nemendur hönnunarforsendur um það hversu marga fermetra af atvinnu- og íbúðarhúsnæði þau þyrftu að koma fyrir á svæðinu. Í síðasta hluta verkefnisins gerði svo hver nemandi hönnunartillögu fyrir svæðið byggt á fyrrnefndum þáttum. Hönnunartillagan var kynnt á veggspjöldum og með líkönum.

AuglýsingAuglýsing