„Svakalegar „Skútupulsur“ vekja upp góðar minningar um Akranes“

AuglýsingLangisandur, Garðalundur, Írskir dagar, Jaðarsbakkalaug og svakalegar „Skútupulsur“ vekja upp góðar minningar um Akranes. Ég kem oft upp á Akranes enda þekki ég marga þar,“ segir Ágúst Kristinn Eðvarðsson 17 ára Taekwondo maður sem býr í Keflavík.

Ágúst Kristinn er í fremstu röð á Íslandi í íþrótt sinni og var m.a. valinn Taekwondo maður ársins 2018. Móðir hans er Skagakonan Þórey Guðný Marinósdóttir og faðir hans, Eðvarð Eyberg Loftsson, rak lengi Ferstikluskálann í Hvalfirði.

„Bróðir pabba og fjölskylda búa á Hamri í Hvalfjarðarsveit rétt fyrir utan Skagann, þangað er alltaf gott að koma,“ segir Ágúst Kristinn en hann ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

„Ég æfi mjög mikið, stundum 6 sinnum í viku og stundum 12 sinum í viku. Ég er í Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég stunda nám á Raunvísindabraut og aðalvalfagið þar er læknisfræðilína. Ég er á öðru ári í skólanum. Hefðbundinn dagur hjá mér er að vakna snemma, borða góðan morgunmat. Þegar skólanum er lokið elda ég mér ommilettu og borða ávöxt.

Ég er þjálfarateyminu hjá félaginu mínu og þegar ég er búinn að þjálfa taka við æfingar hjá mér sjálfum. Eftir æfinguna fæ ég mér próteinboost með fæðubótaefnum frá Bætiefnabúllunni. Eftir æfinguna fer ég beint heima að borða kvöldmat. Ég læri á kvöldi, slaka aðeins á en ég fer að sofa um 10 eða hálf ellefu,“ segir Ágúst þegar hann er inntur eftir því hvernig hefðbundinn dagur er hjá honum.

En hvernig stóð á því að Ágúst fór að æfa Taekwondo?

„Foreldrar mínir hvöttu mig að prófa þessa íþrótt. Strax á fyrstu æfingunni fékk ég mikinn áhuga. Það hjálpaði líka að ég og pabbi horfðum mikið saman á karatemyndir með Bruce Lee.

Ég leyfi mér að dreyma um stór hluti í Taekwondo. Að setja sér stór markmið virkar eins og eldsneyti, ég er með brennandi áhuga á íþróttinni.“

Ágúst hefur nú þegar náð góðum árangri á alþjóðlegum vettvangi.

„Eftirminnilegasta fram til þessa er að ná bronsverðlaunum á Evrópumóti unglinga. Stóri draumurinn er að vinna mér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum.

Samkeppnin er gríðarleg í Taekwondo íþróttinni á heimsvísu. Ég hef sett mér það markmið að verða bestur í veröldinni í mínum þyngdarflokki og skrifa nafn mitt á spjöld sögunnar.“

Hjátrú kemur aðeins við sögu hjá Ágústi í íþróttinni og hann hefur klúðrað mörgum hlutum.

„Það vandræðalegasta á mínum ferli eru örugglega öll þau handa bönd eða „fimmur“ sem að ég hef klúðrað. Það er ótrúlega vandræðalegt. Ég er einnig mjög hjátrúar fullur. Ég set alltaf vinstri legghlífina mína á fyrst – þegar ég set hlífarnar á mig. Það má ekki klikka.“

Ágúst Kristinn hefur áhuga fleiri íþróttum og nýlega fór hann að æfa sig á gítar og ukulele.

„Ég elska góða nautasteik sem er vel „rauð“ með góðum kartöflum og grænmeti. Ég drekk lítið gos en ég mér finnst það alveg vandræðalega gott. Ísköld kók í gleri er efst á listanum hjá mér núna.

Ég horfi eins og flestir á einhverja þætti og Brooklyn Nine-Nine og Master of None eru í uppáhaldi hjá mér núna.

Í tónlistinni eru það Oasis, The Doors og Queen, og lagið mitt þessa dagana er Foxy Lady með Jimi Hendrix,“ segir Ágúst Kristinn.

Ættartréð:
Móðir: Þórey Guðný Marinósdóttir, móðir hennar: Ágústa Sigmundsdóttir – foreldrar hennar voru Sigmundur Ingimundarson og Sæunn Árnadóttir – Stjúpfaðir móður: Garðar Þór Garðarsson foreldrar hans voru Þórdís Kristjánsdóttir og Garðar Óskarsson
Faðir: Eðvarð Eyberg Loftsson úr Keflavík – rak lengi Ferstikluskála í Hvalfirði Foreldrar: Loftur Pálsson og Guðrún Jónína Einarssdóttir

AuglýsingAuglýsing