„Endalaust af tækifærum“ – Magnús Björn verðlaunaður í HR

Auglýsing



„Tölvunarfræðin er að margra mati ein mest spennandi greinin í háskólanum í dag. Tölvuvæðingin er í bullandi þróun og það er endalaust af tækifærum í atvinnulífinu fyrir tölvunarfræðinga. Út frá því myndi ég alltaf mæla með henni en hinsvegar er ekki hægt að endast í háskólanámi ef maður hefur ekki áhuga á því sem maður er að læra,“ segir Magnús Björn Sigurðsson.

Skagamaðurinn fékk verðlaun frá  Viðskiptaráði Íslands við útskrift hans úr Háskólanum í Reykjavík þann 2. febrúar s.l.

Magnús Björn, sem er fæddur árið 1993, útskrifaðist með BSc gráðu í tölvunarfræði. Elfa Rós Helgadóttir unnusta hans er með honum á myndinni.

Alls voru 258 nemendur útskrifaðir og fékk Magnús Björn verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur ásamt þremur öðrum nemendum. Alls voru 182 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 72 úr meistaranámi og fjórir úr doktorsnámi.

Magnús segir að það hafi hjálpað sér mikið í tölvunarfræðináminu að hafa klárað BSc í rekstrarverkfræði fyrir tveimur árum. Fyrir útskriftina hafði hann ekki velt því fyrir sér að hann gæti fengið verðlaun.

„Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert búinn að pæla í þessum verðlaunum fyrir útskriftina. Þegar það var tilkynnt að einn einstaklingur úr hverri deild fengi verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur fór ég að velta þessu fyrir mér. Námið gekk mjög vel hjá mér og ég fór að hugsa hvort ég ætti séns í þetta. Ég kláraði BSc í rekstrarverkfræði fyrir 2 árum og það nám hjálpaði mér mjög mikið í tölvunarfræðinni. Eftir tvö ár í verkfræðinni ákvað ég að henda mér beint í tölvunarfræðinna eftir útskrift því mér fannst alltaf skemmtilegast að forrita. Ég get ekki sagt að ég hafi migið á mig úr gleði yfir þessum verðlaunum. Ég fékk bók sem fjallar um 100 ára sögu Viðskiptaráðs Íslands,“ segir Magnús léttur.

En hvað tekur við hjá Magnúsi, meira nám eða vinna?

„Ég hóf störf sem forritari hjá TripAdvisor í lok seinasta árs. Þar er ég að þróa hugbúnað fyrir Bókun sem er íslenskt fyrirtæki sem TripAdvisor keypti fyrir ekki svo löngu síðan.

Bókun er kerfi sem gerir aðilum í ferðaþjónustu kleift að selja ferðir sínar ásamt mörgu öðru á netinu. Kerfið er orðið mjög vinsælt út um allan heim og er í mikilli sókn á erlenda markaði.

Einnig hef ég verið í rúmt ár partur af teymi sem er að þróa borðabókunarvél sem heitir Dineout.. Það verkefni hefur verið mjög skemmtilegt og jafnframt eru flottir einstaklingar á bakvið það. Kerfið gerir veitingastöðum í Íslandi kleift að fá borðapantanir inn í gegnum netið.

Í dag eru 30 staðir komnir inn í kerfið og á næstu mánuðum munum við gefa út vefsíðu og app þar sem fólk getur séð alla staðinu í kerfinu og pantað sér borð á þeim veitingastað sem þeim líst á,“ segir Magnús Björn við skagafrettir.is.

Védís Hervör Árnadóttir, samskipta- og miðlunarstjóri Viðskiptaráðs Íslands veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur. Þau hlutu að þessu sinni: Bryndís Gyða Michelsen, BA í lögfræði, Magnús Björn Sigurðsson, BSc í tölvunarfræði, Joseph Karlton Gallogly, MSc í markaðsfræði og Heiðar Snær

Jónasson, BSc í rekstrarverkfræði.

Ættartréð:
Áslaug Árnadóttir og Sigurður Páll Harðarson eru foreldrar Magnúsar. Áslaug er starfsmaður í íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum og Sigurður Páll er bæjarverkfræðingur Akraness.
Inga Tinna og Pétur Aron eru systkini Magnúsar.

 Auglýsing


Auglýsing



Auglýsing