Nemendur frá Akraseli slógu í gegn með ljóðinu Ævintýri

Auglýsing


[adrotate group=“5″]


„Mjög glaðlegt og leitandi ljóð með æsispennandi endi sem skilur lesandann eftir hugsi og skapar eftirvæntingu um að enn meira fjör sé í vændum,“ segir í umsögn dómnefndar um ljóð sem nemendur á leikskólanum Akraseli sendu inn í ljóðasamkeppnina „Að yrkja á íslensku.“

Kennarasambandið stóð að þessari keppni í tilefni Dags leikskólans.

Ævintýri

Það er gaman að fá kakó og kex.
Það er gaman að gefa fuglunum og skauta á klaka
og finna prik og köngla,
finna tyggjó og rusl.
Finna eggjaskurn.
Finna stór prik.
Það er gaman að gefa fuglunum brauð og eiga fugla.
Fullt af fuglum.
Kannski getum við klifrað í trénu?

Höfundarnir eru: Maciej, Indíana Alba, Katla Sól, Helga Katrín og Arnlaug Fanney.

Bjarkey Sigurðardóttir, nemandi í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi, bar sigur úr býtum í ritlistarsamkeppninni. Verðlaunaljóð Bjarkeyjar ber titilinn Sumar.

Sumar
Sumar er sólblítt,
gaman er þá.
Að dansa í sumarkjólnum
og borða snakk.

Umsögn dómnefndar: Haglega samið ljóð í ætt við ferskeytlu að formi og fjallar um þá tilfinningu þegar sumarið hellist yfir mann af fullum þunga. Orðið „sólblítt“ er ljóðrænt og sérstaklega skemmtilegt og bendir til myndrænnar og skapandi hugsunar ljóðskáldsins.

Önnur verðlaun komu í hlut Hersteins Snorra, leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi, fyrir ljóðið Skipstjórinn.

Skipstjórinn

Einu sinni var skipstjóri
og lét hann alla gera allt í skipinu
en skipstjórinn stýrði bara allan tímann.
Skipstjórinn dó
og flutti upp í skýin
og til Guðs.
Maðurinn sem drap skipstjórann var vondur
og hann fór til helvítis.

 

Umsögn dómnefndar: Í ljóðinu Skipstjórinn er sögð saga af lífsbaráttu um borð í skipi, kannski fiskitogara sem aflar þjóðartekna. Illvirki er framið og morðingi fær makleg málagjöld. Mynd af himnaríki og helvíti er raunveruleg í huga ljóðmælanda og munur á réttu og röngu afdráttarlaus, ef allt væri svona skýrt í heimi hér væri gaman að lifa. Ískaldur raunveruleiki úr sjávarþorpi.

Þátttaka í ritlistarsamkeppninni var góð og bárust vel á annað hundruð ljóð, sögur, örsögur og textar. Dómnefnd var skipuð Haraldi Frey Gíslasyni, rithöfundi og formanni Félags leikskólakennara, Steinunni Ingu Óttarsdóttur, gagnrýnanda og sérfræðingi hjá Félagi framhaldsskólakennara, og Sigrúnu Birnu Björnsdóttur, formanni Samtaka móðurmálskennara og sérfræðingi í jafnréttis- og vinnuumhverfismálum hjá KÍ.

Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla veita leikskólunum sem eiga í hlut viðurkenningarvott í formi fjár. Leikskólinn Jötunheimar fær 40 þúsund krónur og Ásgarður og Akrasel 20 þúsund krónur. Vona félögin að féð verði notað til góðra hluta í leikskólunum þremur.

Ritlistarsamkeppnin Að yrkja á íslensku er liður í vitundarvakningu um móðurmálið sem Kennarasambandið hleypti af stokkunum á Alþjóðadegi kennara síðasta haust. Samstarfsaðilar eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóli Íslands og Heimili og skóli. #íslenskaerstórmál.

Auglýsing


[adrotate group=“5″]


Auglýsing


[adrotate group=“1″]