Ísak Bergmann fær mikið hrós frá þjálfara Norrköping

Auglýsing



„Ísak Bergmann Jóhannesson er einstakur leikmaður,“ segir Jens Gustafsson þjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping við sænska fréttavefinn Fotbollskanalen.

Ísak Bergmann, sem er 15 ára gamall, lék í 90 mínútur í gær með aðalliði Norrköping á æfingamóti í Portúgal.

Skagamaðurinn var yngsti leikmaður vallarins en þjálfarinn var hæstánægður með framlagið frá hinum unga íslenska landsliðsmanni.

Oliver Stefánsson, sem er einnig í herbúðum Norrköping, var einnig í leikmannahópnum í gær og lék hann síðustu 20 mínúturnar.

„Það er unun fyrir mig sem þjálfara að fá að vinna með svona hæfileikaríkum leikmanni. Ísak mun fá tíma til að byggja sig upp líkamlega en hann er með leikskilning og hæfileika til þess að spila með aðalliði Norrköping,“ segir Gustafsson m.a. í viðtalinu.

Ísak og Oliver sömdu við Norrköping nýverið og eru þeir búsettir í Svíþjóð. Foreldrar Olivers fluttu út til Norrköping til þess að vera drengjunum til halds og trausts. Ísak Bergmann verður 16 ára í maí en Oliver er fæddur árið 2002 og verður 17 ára á þessu ári.

Skagamenn hafa góða reynslu af því að stíga sín fyrstu skref sem atvinnumenn hjá þessu félagi. Arnór Sigurðsson, se nú leikur með CSKA Moskvu í Rússlandi, byrjaði sinn feril hjá Norrköping.

„Arnór hefur verið fyrirmyndin frá árinu 2015. Ég lít upp til hans og ég talaði oft við hann áður en ég tók ákvörðun um að fara til Norrköping. Arnór seldi mér að þessi klúbbur væri frábær fyrir mig. Mér líður vel hjá Norrköping. Bærinn er passlega stór, leikmennnir hafa tekið vel á móti okkur, og það er allt eins og það á að vera.“

Ísak er ánægður með að fá hrós frá þjálfara liðsins en hann er með báða fæturna á jörðinni.

„Það er gott að fá hrósið en það dugir ekki að hafa hæfileika. Ég þarf að leggja enn meira á mig til að ná enn lengra. Maður fer ekki langt á því að vera efnilegur.“

Ísak hefur sett sér það markmið að fá tækifæri í leik með Norrköping í úrvalsdeildarleik í lok tímabilsins.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér: 

Auglýsing



Auglýsing