„Það hafa orðið alvarleg slys vegna snjóflóða til dæmis í Esjunni og við hjá Björgunarfélagi Akraness viljum síður að það gerist. Hvetjum við því alla ferðamenn til þess að meta aðstæður rétt, hafa réttan búnað meðferðis og kunna að nota hann,“ segir í færslu á fésbókarsíðu félagsins.
Ástæðan fyrir þessum skrifum er að snjóflóð féll í Akrafjalli á dögunum – eins og sjá má á myndinni.
Árið 1995 tók snjóflóð með sér tvo tvítuga Skagamenn í Selbrekku í Akrafjalli en frétt um þann atburð er neðst í þessari frétt.
Snjóflóð geta fallið í hvaða brekku sem er, sé snjór til staðar og réttar veðuraðstæður (algengast í 30-60 gráðu halla).
Björgunarfélag Akraness bendir útivistarfólki á að vera vakandi fyrir snjóflóðahættu.
„Fólk fer í fjallgöngur í auknum mæli og því rétt að minna á að vera vakandi fyrir snjóflóðahættu. Í vetrarferðum er rétt að vera með snjóflóðaýla, skóflu og snjóflóðastöng meðferðis. Sleðamenn og skíðamenn í dag geta líka verið með bakpoka með innbyggðum púða sem blæs upp í þvi skyni að minnka líkur á að viðkomandi grafist undir flóði lendi hann í því.
Síðan þarf að kunna að nota búnaðinn í neyð! Staðreyndin er sú að lífslíkur þess sem grefst í flóði eru góðar náist hann upp mjög fljótt (helst innan 15 mínútna) þá reynir á félagana að bjarga. Eftir þann tíma fara lífslíkur hratt versnandi. Rannsóknir sýna að eftir 30 mín eru líkur á að fólk finnist á lífi 30% en eftir 130 mín aðeins 3%.“
Í mars árið 1995 tók snjóflóð með sér tvo pilta í Selbrekku í Akrafjalli. Morgunblaðið var með eftirfarandi frétt þann 18. mars árið 1995.
Fjórir tæplega tvítugir menn voru hætt komnir í Akrafjalli þegar snjófljóð féll í svokallaðri Selbrekku sem er í vestanverðu fjallinu og einn aðal uppgöngustaður á fjallið sé gengið frá Akranesi.
Flóðið tók með sér tvo þeirra og urðu þeir að fá hjálp félaga sinna til að losa sig úr snjónum. Meiðsl mannanna eru lítil en óhætt er að segja að þeir hafi sloppið með skrekkinn.
Mennirnir gengu á fjallið um miðjan dag á fimmtudag en hugðu ekki á neina langferð. Þrír mannanna eru Akurnesingar en sá fjórði hollenskur vinur þeirra. Ferð þeirra var farin sem venjuleg útivistarferð og eins og einn þeirra sagði til að sýna Hollendingnum íslenskt vetrarveður í sínum versta ham. Allir eru þeir vanir fjallgöngum og hafa heimamennirnir oft gengið á þessar slóðir fyrr.
„Hræddir“
Eiríkur Jónsson, einn þeirra félaga, segir að síst af öllu hafi þá grunað að snjóflóð gæti orðið svo neðarlega í þessari brekku. Hann segir að skyndilega þegar þeir voru á göngu í miðri brekkunni hafi snjórinn farið af stað og hann, sem gekk fyrstur og síðan Þórður Guðmundsson sem gekk síðastur, hafi báðir lent í flóðinu og borist með því nokkra leið. Hinir tveir voru lausir allan tímann og komu félögum sínum strax til hjálpar. „Þeir byrjuðu á því að hreinsa vel frá höfðinu á mér,“ segir Eiríkur,“og sneru sér síðan að Þórði. Þeim tókst eftir dágóða stund að losa okkur báða og síðan forðuðum við okkur af svæðinu eins fljótt og hægt var. Eiríkur segir að veður hafi verið mjög slæmt á þessum slóðum en þeir hafi verið vel búnir. „Það amar ekkert að okkur nú,“ segir hann. „Að sjálfsögðu urðum við hræddir. Sérstaklega þegar við vorum enn fastir í flóðinu og áttum jafnvel von á nýju flóði.“
Eiríkur segir að svona lífreynsla sitji í þeim og kenni þeim að fara varlega. Á þessum slóðum var aftaka veður og frekari hættur eru fyrir hendi.“
Auglýsing
Auglýsing