Ferjusiglingar í „strand“ fram til ársins 2020

Ekkert verður af siglingum á milli Akraness og Reykjavíkur á árinu 2019 en stefnt er að því að bjóða upp á slíka þjónustu á árinu 2020.

Í fundargerð Skipulags- og umhverfisráðs Akraness kemur fram að samþykkt hafi verið að vinna að útboðsgögnum vegna Flóasiglinga 2020. Samhliða vinnu við útboðsgögn verði unnin greinargerð um reynslu af Flóasiglingum 2017.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi sendu frá sér yfirlýsingu um málið í gær á bæjarstjórnarfundi – sem er svohljóðandi.

„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Akranesi lýsa yfir vonbrigðum með að núverandi meirihluti bæjarstjórnar Akraness hafi ekki lagt þunga sinn í þá vinnu að klára útboðsgögn um rekstur á ferjusiglingum á milli Akraness og Reykjavíkur, fyrir sumarið 2019, eins og vonir okkar stóðu til í upphafi þessa kjörtímabils. Ljóst er að ferðamönnum hefur fjölgað talsvert hér á Akranesi á síðustu misserum og þykir vinsælt að koma í dagsferðir á Akranes, njóta Langasands og Guðlaugar sem og umhverfisins á Breiðinni. Ferjusiglingar hefðu verið kjörin viðbót við ferðamannastrauminn ásamt þeim fjölmörgu farþegum sem gætu nýtt sér þennan umhverfisvæna ferðamáta til og frá vinnu. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins binda miklar vonir til þess að unnið verði að kappi við að klára undirbúning þessa verkefnis svo siglingar geti hafist eigi síðar en vorið 2020.“