Stefán Þór er „skúffuskáld“ með sterka tengingu á AkranesEins og fram hefur komið á Stefán Þór Steindórsson, byggingafulltrúi Akraness, eitt af lögunum í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2019. Lagið heitir „Þú bætir mig / Make me whole“ og er það flutt af Ívari Daníels.

Stefán Þór segir í samtali við skagafrettir.is að hann eigi þá ósk að fólk njóti kvöldsins saman í faðmi vina eða ættingja heima í stofu þegar lagið hans verður flutt á RÚV í Söngvakeppninni laugardaginn 16. febrúar.

Stefán Þór er fæddur í Vestmannaeyjum en eiginkona hans, bjó lengi á Akranesi, Þórhildur Rafns Jónsdóttir. En hún er dóttir Ingu Harðardóttur íþróttakennara og Jóns Rafns Runólfssonar, sem var lengi í forsvari fyrir ÍA.

„Við erum búsett á höfuðborgarsvæðinu en ég hóf störf á Akranesi sem byggingarfulltrúi árið 2016.

Ég hóf störf sem byggingarfulltrúi Akraness fyrri hluta ársins 2016. Ég er búsettur á höfuðborgarsvæðinu en ég þekkti vel til hér á Akranesi í gegnum Þórhildi. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu hratt Akraneskaupstaður er að byggjast upp. Það er ánægjulegt. Metnaðurinn skín í gegn hvert sem litið er og allir eru að leggjast á eitt að gera góðan bæ enn betri.“

Eins og áður segir er Stefán Þór Eyjamaður en hann fór til Reykjavíkur í nám. „Ég er byggingarfræðingur en ég lærði m.a. í Kaupmannahöfn en snéri til Reykjavíkur að loknu námi.“

Tónlistin hefur alltaf verið stór hluti af lífi Stefáns Þórs.

„Áður en ég hóf gítarnámið lærði ég á orgel. Ég fór fljótlega að semja tónlist og ég var í nokkrum „bílskúrsböndum“. Mér hefur alltaf þótt skemmtilegast að sitja með gítarinn, einn eða í samspili við aðra. Spila í þjóðhátíðartjaldi eða á öðrum skemmtunum þar sem að hópur fólkst er tilbúið að taka þátt í söngnum. Tónlistin tengir fólk svo yndislega saman á þann hátt.“

Stefán Þór segir að hann sé „skúffuskáld“ en hann á um 30 frumsamin lög á „lager“.

„Ég hef gefið út eitt lag áður og tekið upp nokkuð af efni sem er aðgengilegt á internetinu. Önnur lög eru í djúpri skúffu skúffuskáldsins þar sem þau bíða eftir réttum aðila til að flytja. Ætli það liggi ekki 30 lög í skúffunni sem ýmist eru tilbúin eða á þau vantar texta til að þau fái að sleppa úr skúffunni.“

Stóra kvöldið er á laugardaginn hjá Stefáni en hann samdi „Þú bætir mig“ með þeim Richard Micallef og Nikos Sofis.

„Lagið er samið fyrir þessa keppni og vonandi gefur þetta samstarf okkar þriggja meira af sér í framtíðinni.
Við setjum okkur raunhæf markmið og vonumst til að komast upp úr undankeppninni á laugardaginn.

Það er samt mikilvægast að við getum á sunnudagsmorgunn litið til baka og sagt að allt hafi gengið upp í atriðinu okkar.

Hvernig sem fer í keppninni sem slíkri er frammistaðan þessar 3 mínútur mikilvægastar fyrir flytjanda lagsins Ívar Daníels. Ef vel gengur fáum við góða dóma dómnefndar og fjölda atkvæða áhorfenda.

Ég vona að fólk kjósi með hjartanu það lag sem það tengir mest við og tekur að geti fært landi og þjóð jákvæða umfjöllun. Að velja flytjanda sem skilar laginu frá sér fallega og fagmannlega er mikilvægast því að það eru milljónir manna að fylgjast með næstu mánuðina,“ segir Stefán Þór við skagafrettir.is

 

 

Stefán Þór hefur töluverða reynslu af Söngvakeppninni.

Hann var gítarleikari í atriðinu hjá Eiríki Haukssyni þegar hann söng Valentine Lost í lokakeppninni sem fram fór í Finnlandi.

Stefán Þór var í sama hlutverki í laginu Hugarró sem Magni Ásgeirsson flutti árið 2012.

AuglýsingAuglýsing