,,Það eru margir sem segja mér að ég hafi verið að koma inn í frábært lið og spyrja hvort það hafi ekki verið allt í lagi að skora þessi 15 mörk. Ég segi bara nei, þetta var frábær árangur og ég er stoltur af honum,“ segir Skagamaðurinn Arnar Gunnlaugsson í viðtali í hlaðvarpsþættinum 90 mínútur á DV/433.is.
Arnar er í dag þjálfari Víkings úr Reykjavík sem leikur í Pepsi-deild karla. Hann á langan feril að baki sem atvinnumaður en endurkoma hans árið 1995 var söguleg.
Smelltu hér til að hlusta á þáttinn:
Þar rifjaði Arnar upp magnaða endurkomu hans og Bjarka Gunnlaugssonar með ÍA liðinu í knattspyrnu árið 1995. Arnar skoraði 15 mörk í 7 leikjum og það er ólíklegt að það afrek verði leikið á ný.
Arnar spilaði með liði Feyenoord frá 1992 til 1994 áður en hann samdi við Nürnberg í Þýskalandi.
Þar stoppaði Arnar í eitt ár áður en hann fékk grænt ljós á að snúa aftur heim til ÍA ásamt bróður sínum, Bjarka.
Arnar og Bjarki fóru heim til að halda sér í leikformi en þeir voru enn í eign hollenska félagsins.
Arnar gerði eitthvað sem verður aldrei endurtekið eftir að hafa komið aftur heim til ÍA en hann gerði þá 15 mörk í aðeins 7 deildarleikjum.
Ekki löngu seinna var hann svo farinn til Sochaux í Frakklandi áður en hann sneri aftur heim í stutta stund.
,,Á skrýtin hátt þá var þetta svo sjálfsagt á þessum tíma. Þú varst að koma heim úr atvinnumennsku og áttir að vera maðurinn.“
,,15 mörk er auðvitað fáránleg tala, liðið var mjög gott þarna og var nánast að vinna deildina þegar við komum inn í þetta.“
,,Það erfiðasta í þessum leik er að skora mörk en ég verð alltaf stoltari og stoltari eftir því sem árin líða. Það verður aldrei hægt að gera þetta aftur.“
,,KR var mjög sterkt á þessum árum, þeir voru með flotta sentera á þessum tíma. Senterinn sem var á undan mér á Akranesi, þeir voru flottir líka og ekki voru þeir að gera 15 mörk í 7 leikjum.“
,,Það eru margir sem segja mér að ég hafi verið að koma inn í frábært lið og spyrja hvort það hafi ekki verið allt í lagi að skora þessi 15 mörk. Ég segi bara nei, þetta var frábær árangur og ég er stoltur af honum.“
Auglýsing
Auglýsing