„Þetta var bara einhver fíflaskapur sem kom upp hjá mér í gær þegar ég sá mína menn í Manchester United komast áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar, “ segir Elvar Már Valdimarsson við skagafrettir.is.
Skagamaðurinn vakti athygli á götum bæjarins í dag á vel merktum vinnubíl þar sem að Norðmanninum Ole Gunnar Solskjær er nú gert hátt undir höfði.
„Ég ýtti þessari hugmynd að Eyþóri Óla Frímannssyni hjá Topp Útlit í morgun. Hann var ekki lengi að redda þessu og þetta var komið upp og á bílinn fyrir hádegi.“
Elvar Már er gallharður stuðningsmaður Man Utd. Hann hefur á undanförnum vikum og mánuðum tekið gleði sína á ný yfir gengi enska liðsins eftir nokkuð brösuga byrjun á tímabilinu.
„Tengingin er að Ole Gunnar sé við stýrið á þessum bíl og þá fer þetta allt vel,“ bætti Elvar Már við en hann starfar hjá SF Smiðum.
Auglýsing
Auglýsing