Sigurganga ÍA heldur áfram – mörkunum rigndi gegn KA



Sigurganga Skagamanna í Lengjubikarkeppni karla í knattspyrnu hélt áfram í gærkvöld.

ÍA lagði lið KA 4-0 og leikur til úrslita í keppninni gegn KR eða FH sem mætast í undanúrslitum 30. mars.

Albert Hafsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins á 30. mínútu og Tryggvi Hrafn Haraldsson bætti við öðru marki átta mínútum síðar. Spánverjinn knái Gonzalo Zamorano skoraði þriðja markið á 54. mínútu og Bjarki Steinn Bjarkason innsiglaði sigurinn tveimur mínútum síðar með fjórða marki ÍA.

Fjölmenni var á leiknum sem fram fór í Akraneshöll og var hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

ÍA hefur skorað tæplega fjögur mörk að meðaltali í Lengjubikarkeppninni og aðeins fengið á sig tvö mörk alls.

Í lið ÍA vantaði fjölmarga leikmenn sem eru í verkefnum með yngri landsliðum Íslands.

 

 

Auglýsing



Auglýsing