Akraborg styttir vinnuvikuna – „Viljum stuðla að meiri starfsánægju hjá starfsfólki“„Við lítum á þetta sem verkfæri í þeirri vegferð að gera vel við okkar fólk og gera fyrirtækið að fjölskylduvænna fyrirtæki og þar með vænlegri kost,“ segir Ragnar Þór Gunnarsson aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Akraborg við Skagafréttir.

Fyrirtækið hefur keyrt í gang tilraunaverkefni fram á sumar þar sem að vinnuvika starfsmanna er stytt um tvær klukkustundir. Samkvæmt bestu heimildum Skagafrétta er Akraborg fyrsta fyrirtækið á Akranesi sem fer þessa leið – en verkefnið er einnig keyrt samhliða hjá Akraborg í Ólafsvík.

Um 40 starfsmenn vinna hjá Akraborg hér á Akranesi en fyrirtækið er með tvær verksmiðjur, eina á Akranesi og eina í Ólafsvík. Samtals eru um 50 starfsmenn hjá fyrirtækinu sem framleiðir mestmegnis niðursoðna þorsklifur en er einnig með aðrar vörutegundir á borð við þorsklifarapaté og niðursoðin svil. Ársvelta Akraborgar er í kringum 1.800-1.900 milljónir

Ragnar Þór Gunnarsson

Ragnar Þór segir að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi verið með hugann við þetta verkefni í töluverðan tíma.

„Ástæðan fyrir því að við fórum að skoða þetta af alvöru var sú að við höfðum fylgst með fyrirtækjum úr fjarska sem höfðu látið vaða og þar hafði reynslan verið góð. Við lítum á þetta sem eitt tól í þeirri vegferð að gera vel við okkar fólk og gera fyrirtækið að fjölskylduvænna fyrirtæki og þar með vænlegri kost. Þetta er auðvitað launahækkun í þeim skilningi að starfsfólkið fær greitt sömu laun fyrir 38 tíma vinnuviku í stað 40 tíma vinnuviku,“ segir Ragnar.

Helsta markmiðið með breytingunni er að stuðla að meiri starfsánægju hjá starfsfólki og það er ávinningur fyrir fyrirtækið.

„Fyrirtæki í dag eru í samkeppni um gott starfsfólk og þetta hefur áhrif á og gerir okkar vinnustað að ákjósanlegri kosti. Þessi ákvörðun er í raun og veru uppsprotinn frá stjórnendum fyrirtækisins, þar sem planið er einfaldlega að vera leiðandi í þeim málum að skapa vinnustað með nútímalegari hugsun sem er í takt við samfélagið.

Við erum búin að vera að keyra á þessu núna í u.þ.b. mánuð og er mikil ánægja meðal starfsfólks með þessa breytingu.

Heilsuefling starfsfólks hefur verið okkur hugleikið og lítum við á styttingu vinnuvikunnar sem eina leið í heilsueflingu. Við hefum fengið góða reynslu á verkefninu með Önnu Sólveigu sem er ennþá í gangi. Í dag erum við með Fysio Flow tíma tvisvar í viku á vinnustaðnum á vinnutíma. Sjá nánar í frétt hér fyrir neðan.

http://localhost:8888/skagafrettir/2018/09/24/timamotasamningur-hja-akraborg-og-onnu-solveigu/

AuglýsingAuglýsing