Pistill: Þorpið í kaupstaðnum – fyrsti hluti



Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs-og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað skrifar hér fyrsta pistilinn af alls fjórum þar sem að hún beinir kastljósinu að því mikla starfi sem unnið er í Þorpinu.

Við sem vinnum í Þorpinu fáum oft spurningar eins ,,Hvað er Þorpið?“ ,,Heitir Arnardalur núna Þorpið?“eða ,,Hvað er Hvíta hús?“ . Í greinaflokknum ,,Þorpið í kaupstaðnum l-lV“ ætla ég að leitast við að útskýra fyrir bæjarbúum starfsemina í Þorpinu og svara m.a. þessum spurningum og fleirum.

Frístundamiðstöðin Þorpið

Frístundamiðstöðin Þorpið varð til á vordögum 2008. Aðdrangandinn var sá að í september 2007 samþykkti bæjarráð Akraness tillögu tómstunda og forvarnarnefndar um að settur yrði á fót starfshópur um framtíðarsýn í æskulýðsmálum.

 

Umræður fóru strax af stað um húsnæði, starfsemi og fyrirkomulag. Niðurstaða þeirrar vinnu var m.a sú að áfram yrði unnið markvisst að uppbyggingu fjölbreyttrar æskulýðs – og frístundastarfsemi á Akranesi með það að leiðarljósi að vera vakandi fyrir þörfum samfélagsins á hverjum tíma og finna á hvaða hátt hægt er að mæta þeim. Þó húsnæði hafi ekki allt að segja er það þó þannig að starfsemin mótast að sjálfsögðu af því húsnæði sem hýsir hana hverju sinni.


Starfshópurinn var sammála um að brýn nauðsyn væri að stækka húsnæði Arnardals. Á þessum tíma var félagmiðstöðin Arnardalur búin að vera starfandi í tuttugu og átta ár að Kirkjubraut 28 í húsi sem starfsemin bar nafn sitt af. Hvíta húsið, ungmennahús var yngra. Það tók til starfa vorið 2002 og var í gamla iðnskólanum við Skólabraut.

Á þessum tíma var ljóst að húsnæðið að Kirkjubraut hentaði engan veginn lengur þeirri starfsemi sem þar fór fram. Þar að auki var ekki aðgengi fyrir alla, húsið á tveimur hæðum með háum þröskuldum. Það lá einnig  fyrir að ráðast þurfti í miklar viðgerðir á gamla iðnskólanum.

Frístundamiðstöðin Þorpið hóf starfsemi sína að Þjóðbraut 13 í janúar 2008 þegar félagsmiðstöðin Arnardalur og ungmennahúsið Hvíta húsið fluttu þar inn og Tónlistarskóli Akraness sem hafði verið í húsnæðinu í tuttugu ár, flutti í nýtt húsnæði að Dalbraut 1.

Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þessum ellefu árum sem Þorpið hefur verið starfandi. Mikil starfsemi er í húsinu og má segja að þar iði allt af lífi frá morgni til kvölds.

Í Þorpinu er:

Ungmennahúsið Hvíta húsið þar sem bæði er dag og kvöldstarf fyrir 16-25 ára.

Félagsmiðstöðin Arnardalur þar sem bæði er dag- og kvöldstarf fyrir 13-16 ára

K567 dagstarf fyrir 10-12 ára krakka /sumarstarf í júní

Frístundaheimilið Krakkadalur fyrir 8 og 9 ára krakka.

Sumarstarf Þorpsins Leikjanámskeið fyrir 6-10 ára 7-8 vikur að sumri.

Öll starfsemi Þorpsins er án aðgreiningar og er Þorpið stoltur handhafi Múrbrjótsins, en þá viðurkenningu veita Landssamtökin Þroskahjálp þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að allir fái tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.

Brúin:

Þorpið er miðstöð frístunda og forvarna og heldur utan um forvarnarsamstarf á Akranesi. Brúin er formlegur samráðs- og og samstarfsvettvangur starfsmanna og stofnana sem koma að ýmsum málum sem tengjast unglingum í sveitarfélaginu. Verkefnisstjóri æskulýðs og forvarnarmála er formaður og starfsmaður hópsins.

Fyrir utan hefðbundna starfsemi er Þorpið líka nýtt í ýmislegt fleira. Liðveitendur og persónulegir ráðgjafar nýta húsnæðið og eins hafa íbúar í íbúakjarnanum Holtsflöt nýtt sér húsið til afþreyingar á kvöldin og um helgar. Alls kyns námskeið eru líka haldin í Þorpinu. Veturinn 2018/2019 hafa t.d verið í húsinu sjálfstyrkinganámskeið, Hugarfrelsisnámskeið og Peersnámskeið. Þá hefur heilsuefling eldri borgara verið í Þorpinu tvisvar sinnum í viku undanfarin ár, ýmsir íþróttahópar hafa nýtt húsið fyrir hópefli og aðrar félgsmiðstöðvar komið í heimsókn. Þá er einnig mikið samstarf við grunnskólanna sem nýta húsið á ýmsan hátt á morgnana.

Í Þorpinu starfar fjölbreyttur hópur fólks með alls konar menntun og reynslu sem nýtist í öllu starfi. Að jafnaði starfa um 18 starfsmenn, þar af 4 í 100% starfi:

Ársæll Rafn Erlingsson, er frístundaleiðbeinandi í Þorpinu.

Bryndís Gylfadóttir, er deildarstjóri barnastarfs

Heiðrún Janusardóttir, er verkefnisstjóri æskulýðs-og forvarnarmála

Ívar Orri Kristjánsson, er deildarstjóri unglingastarfs

Eins og sjá má er ansi mikil starfsemi í Þorpinu. Á annað hundrað manns fara að meðaltali í gegnum Þorpið á hverjum degi.

Það var mikið gæfuspor stigið þegar ákveðið var að taka efri hæð hússins að Þjóðbraut 13 undir starfsemi frístunda og forvarna á Akranesi.

Á næstunni munu birtast fleiri greinar þar sem nánar verður sagt frá þeim einingum er tilheyra frístundamiðstöðinni Þorpinu.

Auglýsing



Auglýsing