Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs-og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað skrifar pistili nr. 2 af alls fjórum þar sem að hún beinir kastljósinu að því mikla starfi sem unnið er í Þorpinu.
Í tuttugu og átta ár og tuttugu daga þjónaði Arnardalur við Kirkjubraut 48 hlutverki sínu sem félagsmiðstöð unglinga. Húsið var byggt af Ingimar Magnússyni trésmið og bjó hann á efri hæð hússins með fjölskyldu sinni á árunum 1925-1936 en á neðri hæðinni var trésmíðaverkstæði. Árið 1936 keypti svo Ytri-Akraneshreppur, nú Akraneskaupstaður húsið undir rekstur elliheimilis. Þetta átti að vera bráðabirgðalausn en svo fór að í húsinu var rekið elliheimili næstu 40 árin.
Félagsmiðstöðin Arnardalur hóf starfsemi í húsinu þann 12. janúar 1980 þegar Dvalarheimilið Höfði hafði leyst elliheimilið í Arnardal af hólmi.
Ef maður er dramatískur þá getur maður sagt að það hafi kostað blóð svita og tár að koma því í gegn að fá Arnardal á sínum tíma undir starfsemi fyrir unglinga.
Nokkrum sinnum var tillagan felld í bæjarstjórn en menn voru ekki á því að gefast upp.
Þessi barátta fyrir rúmum 40 árum skipaði Akranesi í hóp með þeim fyrstu utan Reykjavíkur að opna félagsmiðstöð af þessu tagi. Unglingarnir fengu að vera með frá upphafi, m.a með vinnuframlagi.
Veggir voru rifnir niður og öll sú vinna fór fram í sjálfboðavinnu af unglingum og nefndarmönnum í æskulýðsnefnd. Á meðan uppbyggingu stóð tókst alla tíð að halda verkinu innan fjárhagsáætlunar meðal annars vegna þess hve margir voru virkir í að vinna verk í sjálfboðavinnu.
Húsnefnd, skipuð unglingum var kosin strax í upphafi starfseminnar og allar götur síðan hefur einhvers konar unglingaráð verið virkt í starfseminni. Arnardalur var formlega opnaður 12. janúar 1980.
Arnardalur óx og dafnaði og eins og áður hefur verið nefnt flutti starfsemin í Þorpið, Þjóðbraut 13 í janúar 2008. Arnardalur er þar í góðum félagsskap og starfsemin heldur áfram að dafna.
Í starfi Arnardals er unnið út frá hugmyndafræði sem byggir á barna- og ungmennalýðræði og tryggir áhrif barna og ungmenna í starfi. Áhersla er lögð á samvinnu, virðingu, reynslunám, félagsfærni, sjálfstyrkingu, samfélagslega virkni og þátttöku. Síðast en ekki síst er verið að vinna að forvörnum og skýr afstaða tekin gegn neyslu vímuefna og annarri neikvæðri hegðun.
Félagsmiðstöðvar eru vettvangur þar sem ungt fólk fær tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri og í framkvæmd, vinna að áhugamálum sínum og fást við skemmtileg verkefni.
Dagstarf Arnadals er í gangi alla virka daga milli kl: 13.00 og 16.00.Auk þess er opið þriðjudagskvöld kl. 19.30 – 22.00, miðvikudagskvöld kl. 19.30 – 22.00 og föstudagskvöld kl. 19.30 – 22.00.
Í Arnardal er líka klúbbastarf og geta klúbbarnir verið bæði innan og utan hefðbundins opnunartíma.
Arnardalur er elsta einingin í Þorpinu og í janúar 2020 fagnar félagsmiðstöðin 40 ára starfsafmæli!
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/04/04/pistill-thorpid-i-kaupstadnum-fyrsti-hluti/
Auglýsing
Auglýsing