„Ég vonast til þess að fá einhver tækifæri með ÍA liðinu í sumar. Markmiðið er að komast í leikmannahópinn og nýta þau tækifæri sem ég fæ. Ef ég skora þá ætla ég að fagna eins og Mbappé,“ segir Hákon Arnar Haraldsson leikmaður ÍA við Skagafréttir.
Hákon Arnar hefur haft í nógu að snúast að undanförnu en hann leikur með tveimur landsliðum fyrir Ísland. U-16 ára liðinu og U-17 ára liðinu sem leikur til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í maí á þessu ári.
Það er ljóst að áhugi erlendra liða á Hákoni er nú þegar til staðar.
Hákon fer um næstu helgi til IFK Norrköping í Svíþjóð ásamt Jóni Gísla Eyland Gíslasyni liðssfélaga sínum úr ÍA og U-17 ára liðinu til reynslu.
Með IFK Norrköping leika tveir fyrrum liðsfélagar Hákons, þeir Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson.
Hákon Arnar er fæddur árið 2003 en hann fagnar 16 ára afmæli sínu í dag. Hann lýkur við grunnskólanám í vor í Grundaskóla.
Skagafréttir ræddu við Hákon Arnar í gærkvöld þar sem leikmannahópur ÍA var í myndatöku fyrir keppnistímabilið.
Viðtalið er í heild sinni hér fyrir neðan.