Það gekk mikið á í Bíóhöllinni í dag þegar Skagafréttir litu þar við.
Æfingar stóðu yfir fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer á laugardaginn.
Ísólfur Haraldsson, framkvæmdastjóri keppninnar, segir í samtali við Skagafréttir að það sé stórkostlegt að upplifa það að svona stór viðburður sé á fjölum Bíóhallarinnar.
„Ég hvet Skagamenn á öllum aldri til þess að upplifa viðburðinn. Þetta er í raun stórkostlegt að við séum að halda slíkan viðburð hér í Bíóhöllinni,“ segir Ísólfur í viðtalinu sem er í heild sinni í myndbandinu hér fyrir neðan.
Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram á laugardaginn hér á Akranesi.
Þetta er annað árið í röð sem keppnin fer fram á Akranesi. Ísólfur og Vinir Hallarinnar tóku við keflinu í fyrra með skömmum fyrirvara – og fór keppnin fram í Íþróttahúsinu við Vesturgötu.
Að þessu sinni verður keppnin í einu besta tónleikahúsi landsins og verður keppnin í beinni útsendingu á RÚV.
Ísólfur hvetur nemendur í grunnskólum Akraness, á miðstigi og unglingastigi til þess að nýta tækifærið og upplifa viðburðinn.
Á laugardaginn kl. 14.30 verður svokallað dómararennsli þar sem að öll 26 atriðin verða flutt á fjölskyldutónleikum. Miðaverð er 1.750 á þá tónleika.
Söngvakeppni Framhaldsskólanna hefst síðan kl. 20:55 og er verðið á þá tónleika 3.500 kr.
Smelltu hér til að kaupa miða.
Nánar í myndbandinu hér fyrir ofan.