Valdís keppir á mótaröð þeirra bestu í Marokkó


Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, hefur leik á fimmtudaginn á móti á LET Evrópumótaröðinni.

Lalla Meryem mótið fer fram í Marokkó en Valdís Þóra hefur margoft keppt á þessum slóðum í Norður-Afríku.

Mótið er það sjöunda á keppnistímabilinu á sterkust atvinnumótaröð Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki.

Keppt er á Royal Golf Dar Es Salam vellinum í höfuðborg Marokkó, Rabat.

Valdís Þóra er í 59. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar á þessu tímabili.

Hún hefur tekið þátt á fimm mótum á tímabilinu og er besti árangur hennar 5. sæti.

Valdís Þóra gat ekki keppt á síðasta móti sem fram fór í Jórdaníu vegna meiðsla í baki. Meiðslin komu upp í byrjun ársins þegar Valdís var að keppa í Ástralíu. Meiðslin eru þess eðlis að Valdís Þóra verður að vinna á þeim með aðstoð sjúkraþjálfara og með fyrirbyggjandi æfingum.