„Maður kynnist alls kyns vitleysingum í þessum bransa“



„Með því að gerast dómari verður þú hluti af sterkum og góðum félagsskap. Það eru ýmis fríðindi sem fylgja þessu. Þar má nefna að dómarar fá frítt inn á alla leiki á Íslandi, þar á meðal landsleiki,“ segir hinn  22 ára gamli Elvar Smári Arnarsson.

Skagamaðurinn hvetur sem flesta að kynna sér þá möguleika og tækifæri sem dómarastarfið býður upp á.

„Það var nú eiginlega útaf algerri tilviljun að ég byrjaði að dæma.  Ég var á vakt í Krónunni þar sem ég vann á þeim tíma. Helgi Sigurðsson hringdi í mig þar sem að honum og Helga Ólafssyni vantaði aðstoðardómara á Blönduós í leik Kormáks/Hvatar gegn Geisla í Aðaldal. Ég sló til og síðan hef ég dæmt yfir 200 skráða leiki,“ segir hinn 22 ára gamli Elvar Smári Arnarsson.

„Ég hef búið á Akranesi stærsta hluta lífs míns en ég bjó einnig á Vopnafirði og í Ólafsvík í nokkur ár,“ segir Elvar Smári.

Elvar Smári er fæddur og uppalinn á Skaganum. Foreldrar hans eru Harpa Hannesdóttir (dóttir Sigurborgar „Diddu“ Jakobsdóttur og Hannesar Oddsonar) og Arnar Jónsson (sonur Pálínu Alfreðsdóttur og Jóns „Nonna“ Svavarssonar),

Upphafið á dómaraferli Elvars einkenndist aðallega af leikjum í 4. deild karla og 1. deild kvenna hjá KSÍ. Hann var mjög virkur í yngri flokkunum fyrir KDA og ÍA áður en hann fékk verkefni á stóra sviðinu.  

„Fyrir mig persónulega var skrefið ekki svo stórt. Ég náði að höndla þau verkefni sem ég fékk mjög vel. Dómgæslan varð strax ótrúlega skemmtileg fyrir mig. Ég lagði því mikinn metnað í að reyna bæta mig eins mikið og hægt var.

Þeir sem koma inn sem nýir dómarar hjá KSÍ byrja að dæma í neðstu deildunum.  Þetta eru samt sem áður flottar deildir fyrir dómara sem eru ekki með mestu reynsluna. Ég fékk ómetanlega reynslu á því að taka nokkur sumur í þessum deildum. Og með góðum árangri fær maður stærri og stærri verkefni.“

Dómarar leggja mikið á sig til að vera vel undirbúnir fyrir keppnistímabilið. Elvar Smári dró ekkert af í undirbúningnum og hann ætlar sér stærri hluti í framtíðinni. 
Elvar Smári Arnarsson. Mynd/skagafrettir.is

„Ég hef hlaupið mikið til að viðhalda þolinu. Ég tók þolpróf á vegum KSÍ í mars sem gekk vel. Besta æfingin er að dæma, og ég hef dæmt mikið á undirbúningstímabilinu – og nýtt þau verkefni til að undirbúa mig fyrir sumarið.

Ég er aðallega aðstoðardómari en ég hef verið að flauta einstaka leiki í yngri flokkum bæði hjá KDA og KSÍ. Ég stefni á að reyna að fá nokkra flautu leiki hjá KSÍ í 1. og 2. deild kvenna í sumar því mig langar að bæta mig sem dómara líka.  Eins og staðan er í dag þá er ég aðallega að dæma í 2. deild karla og Pepsi Max Deild kvenna en vonandi fæ ég minn fyrsta leik í Inkasso deild karla í sumar.

„Jón Halldór lét mig heyra það“

Elvar Smári segir að atvik sem átti sér stað í leik hjá FH í febrúar árið 2018 standi upp úr sem eftirminnilegasta atvikið á ferlinum.

„Staðan var jöfn, 1-1, og það var komið fram á 88. mínútu. Halldór Orri Björnsson fékk boltann frá Guðmundi Karli rétt fyrir utan teig við D-bogann og skýtur á markið. Á þeim tíma er Atli Viðar Björnsson einhverjum meter fyrir innan og færir sig frá skotinu sem endar í markinu. Það sem er eftirminnilegast við það er að Jón Rúnar Halldórsson þáverandi formaður FH var ekki par sáttur við mig og gerði sér ferð niður í horn til mín og lét mig aðeins heyra það eins og má sjá á upptöku ÍATV.“

Elvar Smári segir að félagsskapurinn í dómarastéttinni sé það sem standi upp úr. 

„Dómgæslan er skemmtileg og fjölbreytt. Sumir leikir eru mjög erfiðir, mikill hiti í mönnum, læti allan tímann, stanslaus hlaup upp og niður línuna, mikið tuð o.s.frv. Á meðan aðrir leikir eru bara auðveldir og rólegir frá því að það er flautað á og þangað til flautað er af.  Persónulega finn ég ekki það mikið fyrir áreiti, ef maður er með athyglina inn á völlinn þá pælir maður voða lítið í því sem að áhorfendur eru að kalla að manni. Það tók smá tíma að venjast því að kallað væri á mann, en það er ekkert mál að eiga við það núna. Félagsskapurinn innan dómara stéttarinnar er frábær og maður kynnist alls kyns vitleysingum í þessum bransa.“

„Trúðurinn Mike Dean“

Dómarar eiga sínar fyrirmyndir – enda eru dómarar ómissandi þáttur leiksins. Trúðurinn Mike Dean er á góðum lista hjá Elvari Smára.

„Ég hef alltaf fylgst með fótbolta og æfði lengi vel áður en ég byrjaði að dæma og sem Man Utd. maður þá var Howard Webb alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Ef hann var með flautuna þá atvikaðist ansi oft að mínir menn fengu vafaatriði dæmd sér í hag.

Annars lít ég mikið upp til Simon Bennet og Mike Mullarkey sem aðstoðardómarar, en mínir uppáhalds dómarar eru Michael Oliver, Felix Brych og auðvitað trúðurinn hann Mike Dean.“

Hvernig er hægt að fjölga í dómarastéttinni?

Það er fyrst og fremst hægt með því að halda fleiri námskeið og fyrirlestra. Knattspyrnufélögin og KSÍ eru með dómaranámskeið á hverju ári þar sem farið er yfir hvað dómgæsla felur í sér, létt yfirferð á knattspyrnulögunum og farið yfir hagnýt mál varðandi dómgæslu. Við í KDA státum okkur af því að vera með öflugasta dómarastarf landsins og hvetjum að sjálfsögðu fólk sem væri til í að prófa að dæma, að setja sig í samband við meðlimi okkar og ganga í dómarafélagið okkar,“ segir Elvar Smári Arnarsson.