Pistill: „Árnahús – tækifæri til góðra verka“



Aðsend grein frá Gísla Gíslasyni.

Á Sólmundarhöfða stendur lítið timburhús og skemma sem áður var hlaða.

Árnahús er það nefnt, eflaust eftir Árna Sigurðssyni, en hann og Guðrún Þórðardóttir byggðu húsið. Einhver fleiri nöfn hafa verið notuð um húsið – en höldum okkur við Árnahús.  

Árnahús var samkvæmt gögnum byggt árið 1901 og því að lögum friðað, en hlaðan og stækkun gamla hússins gerð á árunum 1951 og 1952. Laust fyrir 1900 voru a.m.k. sex býli á Sólmundarhöfða auk leiguliða en á 20. öld fækkaði húsum og ábúendum jafnt og þétt og stendur nú Árnahús eitt eftir af fyrri byggð.

Þar bjó síðast Sigursteinn Árnason, sem fæddist á Sólmundarhöfða árið 1915, en hann bjó þar alla tíð en andaðist á dvalarheimilinu Höfða árið 2011 þá 95 ára gamall.  

Fólk á Skaganum, sem er yfir miðjum aldri man eflaust vel eftir Sigursteini, en Halldór Kristjánsson á Heynesi orti svo um Sigurstein:

Ótrúlega unglegur,
ættfræðingur sérstakur,
stæltur eins og stráklingur,
storkar elli glaðlyndur.


Nokkur gögn eru til um ábúð og nýtingu Sólmundarhöfða a.m.k. frá um 1700, en vafalaust hefur Höfðinn allt frá fyrstu byggð á Akranesi legið vel við útræði þar sem enn má sjá Sólmundarhöfðavör og vör í Langasandskrika.  

Nú stendur sumsé Árnahús eitt eftir, en steinhleðsla forn vísar enn til fyrri tíðar og sjá má móta fyrir fleiri hleðslum sem afmarkað hafa býlin og skikana sem nýttir voru, en einnig er til staðar Lindin sem sá kotunum fyrir vatni.

Sigursteinn Árnason. Ljósmyndasafn Akraness. Dúi J. Landmark Tímabil:1980-1989.

Akraneskaupstaður er nú eigandi Árnahúss og hefur í tvígang sótt um styrk til Minjastofnunar til endurbóta á húsinu.  Í seinna skiptið varð erindi sem erfiði og lagðar til 1200 þús. krónur, en umsókn bæjarins tilgreidni gluggaskipti, einangrun og endurnýjun á ytra byrði hússins.  Veitt fjárhæð dugir skammt til endurbóta, en í sjálfu sér er þessi verkáfangi ekki fjárfrekur.

Undirritaður og nokkrir fleiri hafa verið að fikta við að afla því stuðnings að húsið verði gert upp, grjóthleðsla á Höfðanum lagfærð og kannað hvernig megi gera söguna á svæðinu aðgengilegri þeirr sem leggja leið sína þar um – og þeir eru all nokkrir á hverju ári.

Verkefnið býður upp á samstarf bæjar og bæjarbúa, sem lið í að varðveita sögu og minjar. Bjarni Vésteinsson lagði vinnu í að mæla húsin upp og nú er unnið að því að færa þá mælingu inn í stafrænan grunn.

Þorsteinn Bergsson, sem unnið hefur merkilegt ævistarf hjá Minnjavernd og á tengingu við Kikjuhvol og Skagann, skoðaði húsið á síðasta ári og taldi það í þokkalegasta ástandi.  Hann nefndi möguleikann á að gera húsið að skammtímasetri listamanna, sem er ágæt hugmynd.

Helena Guttormsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri hefur fengið lokaárs nemanda það verkefni að greina gróður og umhverfi Sólmundarhöfða og leggsta þar vonandi til gott gagn til nota, en á svæðinu hefur ýmsilegt verið rækað á sínum tíma t.d. rabbabari og kúmen svo dæmi séu nefnd.  

Margir sem rætt hefur verið við um endurnýjun Árnahúss hafa vilja og áhuga til að leggja hönd á plóginn. Að tryggðu lágmarks fjármagni væri þarft og skemmtilegt ef áhugahópur stæði saman að stofnun félags, sem komið gæti að liði við þetta verkefni og ef vill fleiri verkefni, sem þurfa á fúsum höndum til verka.  

Árnahús má gera upp þannig að varðveitt verði saga hússins, en í hlöðunni, þar sem enn eru nokkrir merkilegir munir frá fyrri tíð, má auka nýtingarmöguleika húsanna með útsjónarsamri hönnun.

Til hvers á að nota þetta hús spyrja einhverjir? Svar við spurningunni er ekki það brýnasta heldur hitt að verja þarf húsið frekari hrörnun.  Tækifærin munu hins vegar skila sér þegar húsin hafa verið endurnýjuð.

Vitarnir á Breiðinni og Guðlaug hafa sýnt að ýmislegt er hægt að gera til að auka á fjölbreytni  mannlífs á Akranesi, sem um flest er fallegt nú þegar. Sólmundarhöfðinn og Árnahús gefa færi á viðbótum í þessu efni og vonandi að framlag frá Minjavernd verði hvatning til frekari verka.  

Engu skiptir hvað verkefnið tekur langan tíma ef húsið hefur verið varið fyrir veðri og vindum – mikilvægast er að hefja vegferðina!

Gísli Gíslason, íbúi á Sólmundarhöfða.