SkagaTV: „Við viljum ná árangri“


Helena Ólafsdóttir þjálfari mfl. kvenna er að hefja sitt þriðja keppnistímabil sem þjálfari liðsins.

Helena er einn reynslumesti þjálfari landsins en hún stýrði m.a. A-landsliði kvenna um tíma og hefur einnig þjálfað lið Noregi. Á ferli sínum sem leikmaður var Helena í fremstu röð og lék fjölmarga leiki með A-landsliðinu.

Helena segir að undirbúningur ÍA liðsins hafi gengið vel í vetur.

„Við æfðum vel, fimm til sex sinnum í viku. Hópurinn er skipaður leikmönnum úr 2. flokki og mfl. kvenna og þetta hefur gengið mjög vel að mínu mati. Ég er mjög ánægð með hvernig hefur gengið.“

Kvennaliðið fór í æfingaferð til Spánar í vor sem heppnaðist vel að mati þjálfarans.

„Það var góð stemning í hópnum og gaman fyrir alla að komast á grænt gras og í smá hita til að æfa. Ég var ánægð með hópinn og þetta var skemmtileg ferð.  Það getur stundum verið „vesen“ þegar ungur hópur kemur saman. En það var ekkert slíkt í gangi og þessi ferð tókst vel í alla staði.“

Keppnisskap þjálfarans er mikið og Helena ætlar sér stóra hluti með hið unga lið ÍA.

„Ég er á mínu þriðja ári með liðið. Við vorum nálægt því að komast upp úr Inkasso-deildinin í fyrra. Það var mikil reynsla í liðinu á þeim tíma og að mínu mati hefðum við átt að fara upp um deild. Staðan hefur gjörbreyst á hópnum í vetur. Reynslumiklir leikmenn eru farnir. Ungu leikmennirnir fá því tækifæri, við erum ekki mikið í því að smala til okkar leikmönnum. Mér finnst frábært að vera í þessu starfi með þessum leikmönnum. Þær eru allar viljugar að læra meira og hlusta. Við eigum eftir að gera mistök og rekast á veggi. Það sem skiptir máli er að andinn í hópnum sé góður. Leikmennirnir vita að þær munu gera mistök en þær missa ekki traustið ef þær eru að reyna og leggja sig fram. Við viljum samt sem áður ná árangri.

Þjálfarinn óskar eftir góðum stuðningi frá bæjarbúum í sumar.

„Okkur langar að vera nálægt toppnum. Á góðum degi getum við unnið öll lið en við getum líka rekið okkur á. Hugarfarið þarf að vera rétt og stöðugleiki er eitthvað sem við erum alltaf að leita að. Markmiðin eru skýr en við erum óskrifað blað. Samt sem áður viljum vera í efri hlutanum.“

Við þurfum stuðning frá bæjarfélaginu. Jákvæðni er aðalmálið en að sjálfsögðu má líka gera kröfur til okkar um árangur. Mér finnst frábært framtak hjá ÍA að bjóða ársmiða sem gilda á leiki hjá kvenna – og karlaliði ÍA. Það er mikil jákvæðni í gangi í garð fótboltans um þessar mundir. Það eru allir glaðir og spenntir. Og þá sérstaklega fyrir karlaliðinu. Ég vona samt að Skagamenn gleymi ekki okkur og mæti á völlinn á kvennaleikina. Við erum öll í þessu saman,“ sagði Helena Ólafsdóttir þjálfari mfl. kvenna.