Einar hættir í Grundaskóla og fer í körfuna


Skagamaðurinn Einar Viðarsson mun hefja störf hjá Körfuknattleikssambandi Íslands þann 1. ágúst næst komandi.

Einar hefur starfað sem kennari í Grundaskóla í áraraðir samhliða því að vera ökukennari.

Tveir af lykilstarfssmönnum KKÍ hætta störfum á næstunni. Einar og Snorri Örn Arnaldsson voru ráðnir í þeirra stað. Mikill áhugi var á störfunum hjá KKÍ en um 40 umsóknir bárust um tvö störf sem auglýst voru.

Einar lauk B.ed. prófi frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað frá árinu 2001 sem grunnskólakennari við Grundaskóla á Akranesi.

Á þeim tíma hefur hann sinnt ýmsum störfum innan skólans en lengst af hefur hann starfað sem umsjónarkennari við unglingadeild. Einar er mikill áhugamaður um íþróttir og listir. Hann starfaði um nokkurra ára skeið innan Knattspyrnufélags ÍA og þá hefur hann komið að mörgum uppsetningum leikverka og stjórnun ýmissa viðburða.

Hann hefur ásamt Gunnari Sturlu Hervarssyni og Flosa Einarssyni samið fjölmarga söngleiki sem sýndir hafa verið á undanförnum árum.