Elsa Lára nýr aðstoðarskólastjóri í Brekkubæjarskóla


Elsa Lára Arnardóttir verður nýr aðstoðarskólastjóri Brekkubæjarskóla. Gengið var frá ráðningu Elsu Láru í dag og greint frá því á vef Akraneskaupstaðar.

Alls sóttu 9 aðilar um stöðuna sem Magnús V. Benediktsson hefur gegnt undanfarin ár. Magnús lætur af störfum í lok skólaársins 2019.

Elsa Lára er starfandi umsjónarkennari við Brekkubæjarskóla og formaður bæjarráðs Akraness.

Elsa Lára er með B.ed gráðu í grunnskólakennarafræðum og lýkur í vor meistaranámi í forystu og stjórnun við háskólann á Bifröst.

Elsa Lára hefur mikla reynslu af kennarastörfum og er einnig með margþætta aðra reynslu af stjórnun og skipulagningu. Hún hefur m.a. setið á alþingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 2013-2017.

Elsa Lára er fædd í Reykjavík 30. desember 1975. Foreldrar: Örn Johansen (fæddur 11. ágúst 1957, dáinn 20. desember 2018) verktaki og Sigríður Lárusdóttir (fædd 4. febrúar 1960) sjúkraliði. Maki: Rúnar Geir Þorsteinsson (fæddur 28. júlí 1974) rafiðnfræðingur. Foreldrar: Hrönn Árnadóttir og Þorsteinn Jónsson. Börn: Þorsteinn Atli (1998), Þórdís Eva (2003).