Akraneskaupstaður hefur nú þegar hafið vinnu við undirbúning fyrir ferjusiglingar sumarið 2020. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur í samantekt verkefnastjóra atvinnumála hjá Akraneskaupstað. að stefnt sé að því að markaðssetning á ferjusiglingum 2020 verði sett af stað um mitt ár 2019.
Leitast verði við að bóka stærri hópa fyrirfram. Fyrirtækjum, bæjarfélögum, skólum og aðilum í ferðaþjónustu verði boðið að kaupa miða fyrir hópaferðir fram í tímann og þannig verði skapaður sterkari rekstrargrundvöllur verkefnisins.
Jafnframt verði leitast við að auka þjónustu við íbúa Reykjavíkur
og Akraness sem sækja vinnu og skóla yfir flóann.
Áætlaður kostnaður fyrir verkefnið er 60 milljónir á ári. Gert er
ráð fyrir að tilraunaverkefnið standi yfir í þrjú ár og ákvörðun um framhaldið verði tekin að verkefni loknu.
Með því að semja til þriggja ára sé hægt að læra af mistökum, prófa mismunandi siglingartíma og betrumbæta það sem ekki er að ganga
upp. Þetta gæti tryggt sjálfbærni verkefnisins til framtíðar.