SkagaTV: Fjölmenni við formlega opnun Frístundamiðstöðvar við Garðavöll


„Mér líður að sjálfsögðu gríðarlega vel. Ég er mjög stoltur af þessu verkefni. Ekki skemmir fyrir að golfvöllurinn er 4-5 vikum á undan áætlun. Það er gaman að geta boðið félagsmönnum Leynis og öðrum gestum upp á slíka aðstöðu. Þegar tvennt fer saman þá getum við borið höfuðið hátt,“ sagði Þórður Emil Ólafsson formaður Golfklúbbsins Leynis í dag við Skagafréttir þegar ný og glæsileg Frístundamiðstöð var opnuð með formlegum hætti að viðstöddu fjölmenni.

„Þessi Frístundamiðstöð breytir allri upplifun af því að spila golf hér á Garðavelli. Það er okkar verk að gera þetta að hlýlegri félagsaðstöðu. Það er hvergi betra að vera en á 19. holu á golfvellinum.“

„Bæði Akraneskaupstaður og Golfklúbburinn Leynir geta borið höfuðið hátt með þessa framkvæmd. Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis á hrós skilið fyrir að stýra þessu verkefni og ljúka því á aðeins 14 mánuðum.“

„ Akraneskaupstaður mun koma meira að því að styðja við bakið á Leyni með rekstur golfvallarins. Það er í raun ný hugsun hjá bæjaryfirvöldum að koma að rekstri golfvelli sem íþrótamannvirkis. Bærinn viðurkennir að þetta er eitt af íþróttamannvirkum kaupstaðarins.

Og hingað á Akranes koma á bilinu 12-14 þúsund manns til þess eins að spila golf. Það er gott að vera með bæjarfulltrúa sem viðurkenna golfíþróttina með þessum hætti. Önnur bæjarfélög fylgja vonandi í kjölfarið enda er golfíþróttin stór þáttur í lýðheilsu þeirra sem hana stunda.“