Skagamenn í hæstu hæðum í uppgjöri íþróttafréttamiðla í Pepsi-Maxdeild karla


Leikmenn ÍA eru áberandi í uppgjöri helstu íþróttafréttamiðla Íslands að loknum 4. umferðum í Pepsi-Maxdeild karla í knattspyrnu.

Bjarki Steinn Bjarkason, sem skoraði bæði mörk ÍA í 2-0 sigri liðsins gegn FH er leikmaður 4. umferðar að mati fotbolti.net.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarki fær slíka viðurkenningu en mörkin gegn FH voru þau fyrstu í efstu deild hjá þessum 19 ára leikmanni.

Þetta er í annað sinn sem Skagamaður er valinn leikmaður umferðarinnar hjá fotbolti.net. Tryggvi Hrafn Haraldsson var valinn leikmaður 1. umferðar hjá fotbolti.net.

Í Morgunblaðinu í dag er áhugaverð samantekt þar sem að Skagamenn koma mikið við sögu.

Varnarmaðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson er efstur í M-gjöf Morgunblaðsins en hann hefur skorað 2 mörk á tímabilinu. Óttar Bjarni er með 5 M í fyrstu 4. umferðunum.

Stefán Teitur Þórðarson og Tryggvi Hrafn Haraldsson eru samtals með 4 M á tímabilinu og Einar Logi Einarsson er með 3 M. Þeir eru allir á meðal þeirra efstu á lista Morgunblaðsins.

Bjarki Steinn Bjarkason og Tryggvi Hrafn Haraldsson eru báðir í liði 4. umferðar hjá Morgunblaðinu/mbl.is.

ÍA er efst í M-gjöf Morgunblaðsins með 26 M alls og þar á eftir kemur Breiðablik með 20 M. Liðin mætast í 5. umferð í sannkölluðum toppslag á Kópavogsvelli á sunnudaginn.