Sylvía og Sverrir á verðlaunapalli – ÍA heldur áfram að gera það gott í klifuríþróttinni


Skagamenn halda áfram að klífa upp metorðastigann í klifuríþróttinni á Íslandi.

Um s.l. helgi átti ÍA mjög góðu gengi að fagna á Íslandsmeistaramótaröðinni – en um var að ræða annað mót tímabilsins. Tveir keppendur frá ÍA náðu að komast á verðlaunapall.

Í C-flokki stúlkna hafnaði Sylvía Þórðardóttir í öðru sæti eftir öruggt klifur og Sverrir Elí Guðnason klifraði sig upp í þriðja sæti í drengjaflokki.

Seinni hluti mótaraðarinnar fer fram á haustmánuðum og standa Skagaklifrarar ágætlega að vígi en fara nú í gott sumarfrí þar sem við taka hin ýmsu verkefni á klifursvæðum landsins.

Í sumar verða haldin stutt klifurnámskeið fyrir áhugasama byrjendur, sem og lengar komna, á vegum Smiðjuloftsins og Klifurfélags ÍA. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Smiðjuloftið fyrir frekari upplýsingar.