Pistill: Tómstundir og eldri borgarar


Aðsend grein frá Heiðrúnu Janusardóttur

Undanfarið hefur vefmiðillinn Skagafréttir birt greinaflokk undir heitinu Þorpið í kaupstaðnum þar sem undirrituð hefur reynt eftir bestu getu að greina frá því starfi sem fer fram innan Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins.

Á bak við allt faglegt starf eru ákveðin fræði. Þorpið byggir sitt starf á tómstunda- og félagsmálafræðum. Sífellt fjölgar þeim sem velja sér nám í tómstunda og félagsmálafræði en námsbrautin er kennd við Menntavísndasvið HÍ. Tómstunda- og félagsmálafræðingar starfa víða í samfélaginu, oftast á vettvangi frítímans.

Hingað til hafa flestir valið sér starf með börnum og ungmennum en nú er að verða breyting þar á. Æ fleiri velja sér starf með eldri borgurum á vettvangi frítímans enda nánast óplægður akur þar.

Árlega stendur námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði fyrir Tómstundadeginum. Þetta árið var tómstundadagurinn tileinkaður eldri borgurum og stóð námsbrautin, í samstarfi við Landssamband eldri borgara fyrir málþingi undir yfirskriftinni Eldri borgarar: Valdefling – Virkni – Lífsgæði.

Dagskrá málþingsins samanstóð af erindum frá eldri borgurum, fagfólki á vettvangi sem og fræðafólki og háskólanemum. Tilgangur og markmið málþingsins var að skapa samtal milli eldri borgara, fagfólks á vettvangi tómstunda- og félagsmála og háskólasamfélagsins. Áhersla var lögð á mikilvægi virkni og valdeflingar fyrir lífsgæði eldri borgara. Viðfangsefnið er brýnt innan tómstunda- og félagsmálafræðinnar enda eins og áður sagði, vaxandi vettvangur starfandi tómstunda- og félagsmálafræðinga.

,,Þurfum við þá tómstundafræðinga inn á dvalarheimilin“ var einu sinni spurt og helgið. Í dag svörum við hiklaus játandi. Og ekki bara inn á dvalarheimilin heldur í allt félagsstarf með eldri borgurum.

Á dögunum átti ég þess kost að sitja kynningu á lokaverkefnum útskriftanema í tómstunda- og félagsmálafræði. Fimm áhugaverð verkefni fjölluðu á einhvern hátt um starf með eldri borgurum. Öll þessi verkefni komu inn á mikilvægi fagþekkingar í starfi með eldri borgurum á sama hátt og við nýtum fræðin til að byggja upp starf með börnum og ungmennum. Eitt verkefnið fjallaði um félagslega einangrun eldra fólks og leiðir til lausna, annað um tilgang og markmið með félagsstarfi eldri borgara og samhengi þess við stöðuna í dag. Eitt verkefnið fjallaði um einelti meðal eldri borgara og eitt um heimaþjónustu fyrir þá sem þurfa og útfærslu í samræmi við þarfir hvers og eins. Í öllu þessu starfi er mikilvægt að vita hvert við stefnum, hvernig við ætlum að gera hlutina og hvers vegna. Við verðum að vita á hverju við byggjum. Þannig getur starfið talist faglegt.

Eitt þeirra verkefna sem vakti athygli mína bar heitið ,,Starfslok: blessun eða bölvun“ og fjallaði um það hvernig tómstundafræðingar geta stuðlað að farsælum starfslokum aldraðra á Íslandi, t.d með tómstundaráðgjöf.

Ég fór að velta því fyrir mér, hvað við sem samfélag erum að gera til að leiða fólk farsællega inn í tímabil starfsloka og inn í nýtt og spennandi æviskeið. Það er mjög ríkt Íslendingum að byggja sjálfsmynd sína út frá starfsheiti eða menntun. Og ef við gerum það, hver er ég þá eftir starfslok?

Við heyrum marga segja að þeir hafi aldrei haft jafn mikið að gera eins og eftir að þeir hættu að vinna. Það er oftast þeir sem hafa átt sér innihaldsríkan frítíma, lagt rækt við áhugamál og njóta þess nú að verja meiri tíma í það. Hins vegar eru ekki allir svo lánsamir.

Framundan er nýtt æviskeið jafnvel 20-30 innihaldsrík ár og mikilvægt er fyrir fólk að hefja það skeið sem best. Það er ekki sjálfsagt mál að kunna að nýta frítíma sinn á jákvæðan hátt. Þá getur verið nauðsynlegt að hafa aðgang að stuðningi og ráðgjöf.

Tómstundaráðgjöf fyrir eldri borgara snýst um að átta sig á mikilvægi tómstunda, áhrifum öldrunar á tómstundir og að læra að njóta tómstunda á nýjum forsendum

Með tómstundaráðgjöf er verið að að aðstoða fólk við að nota frítíma sinn á uppbyggjandi hátt og þannig auka lífsgæði. Það er misjafnt hvaða þátt fólk þarf aðstoð með og þess vegna er ráðgjöfinni þrískipt og hún miðuð út frá þörfum hvers og eins:

  • Tómstundaleiðsögn. Finna hvað er í boði, hvenær og hvar fyrir þá sem vita hvað þeir vilja.
  • Menntunarnálgun. Fyrir virkan einstakling sem vill fjölga áhugamálum eða finna ný þar sem aldurinn hefur í för með sér að breyta þurfi um lífstíl /áhugamál. T.d hentar kannski ekki lengur að ganga á fjöll eða stunda svigskíði en maður þarf samt ekki að hætta að hreyfa sig!
  • Meðferðarnálgun. Fyrir þá sem vita ekki hvað þeir vilja og hafa ekki byggt um áhugamál eða verið vikir í tómstundum, oftar en ekki vegna mikillar vinnu. Þessi nálgun hentar helst einstaklingum sem þurfa á meiri aðstoð að halda.  Einstaklingar sem glíma við vandamál sem tengja má við neikvæða nýtingu frítíma eins og leiða, félagslega einangrun óhóflegt neysla vímuefna ofl.

Á málþingi um farsæla öldrun sem haldið var hér á Akranesi haustið 2017 kom fram að fólk er mjög meðvitað um mikilvægi þess að taka virkan þátt í samfélaginu og nýta þá þjónustu sem í boði er.

Það sem íbúar geta sjálfir gert til að stuðla að farsælum efri árum er að mati þeirra sem sátu fundinn að sinna hugðarefnum og tómstundum, stunda heilbrigt líferni, temja sér jákvæðni og lífsgleði, rækta hugann, rækta félagsleg tengsl og undirbúa ævikvöldið.

Þetta gerir enginn fyrir mann en mikilvægt er að hafa góðan stuðning til að þetta geti orðið. Þar getum við sem bæjarfélag gert betur.

Heiðrún Janusardóttir

Verkefnisstjóri æskulýðs og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað og áhugakona um faglegt frístundastarf fyrir alla.