„Klobbar“ og „pönnur“ settar upp á skólalóðum bæjarins


Akraneskaupstaður í samstarfi við Íþróttabandalag Akraness og Knattspyrnufélag ÍA hafa keypt fjóra svokallaða „klobbavelli” eða „pönnur”.

Frá þessu er greint á vef Akraneskaupstaðar.

Um er að ræða litla átthyrnda fótboltavelli þar sem að hægt er að spila hraða og skemmtilega leiki, einn á móti einum. Miðvikudaginn 29. maí síðastliðinn voru fyrstu tveir vellirnir vígðir á sitthvorri skólalóðinni og mættu til leiks Arnar Már frá meistaraflokki karla og Veronica Líf frá meistaraflokki kvenna til að taka fyrstu leikina á þessum nýju völlum. Þá stendur til að setja einn völl á Merkutún og annan fyrir neðan Akraneshöllina hjá ærslabelgnum.

Leikreglurnar eru sáraeinfaldar;

  • Það er spilað einn á móti einum.
  • Báðir leikmenn snerta eigið mark þegar boltanum er kastað inná í upphafi.
  • Sú/sá sem skorar fyrst 3 mörk vinnur.
  • Klobbi endar leikinn.
  • Ef þú skítur út af, yfir veggina, ertu úr leik.
  • Þetta er leikur án snertingar, bannað að halda, hindra ólöglega o.s.frv.
  • Enginn háskaleikur leyfður, tæklingar o.s.frv.
  • Ef brot er framið meðan reynt er að skora eða klobba, stendur markið eða klobbinn.

Orðið „panna” kemur líklega frá Hollandi en þar er það tökuorð frá Súrínam og notað yfir það þegar bolti er settur á milli lappa andstæðingsins, sbr. klobbi á íslensku. Ef þið kannist ekki við leikinn þá eru myndbönd á netinu. Stundum er þetta kallað “nutmeg”