Skagamaðurinn Jón Ingi Þorvaldsson tók þátt í því að setja nýtt Ástralíumet í fallhlífarstökki um s.l. helgi. Alls tóku 130 stökkvarar þátt í því að setja Ástralíumet – og stökkið var framkvæmt á fallhlífarstökksvæðinu Skydive Perris í Kaliforníu.
Jón Ingi segir í viðtali við mbl.is að hann hafi verið heppinn að fá að komast inn í hópinn.
„Þeir [Ástralar] hafa ekki aðstöðu til að setja met af þessari stærðargráðu á heimavelli og því nýta þeir sér aðstöðuna hjá Perris og hafa jafnframt þann háttinn á að leyfa allt að fjórðungi þátttakenda að vera útlendingar, það er ekki Ástralar,“ útskýrir Jón Ingi og það var einmitt þessi útlendingahópur, „Friends of Aussies“ sem svo kallast, sem hann fékk aðgang að.
Það sem aðgerðin snýst um er að ákveðinn fjöldi fallhlífarstökkvara myndi fyrirframákveðið mynstur í frjálsu falli . Fyrra metið var 120 manns og Skagamaðurinn tók því þátt í að skrifa nýjan kafla í sögu fallhlífarstökksins í Ástralíu.
Ólína Jónsdóttir, fyrrum kennari og aðstoðarskólastjóri á Akranesi, er móðir Jóns Inga sem er fæddur árið 1970. Faðir Jóns Inga, Þorvaldur Þorvaldsson, lést árið 1985 en hann starfaði lengi sem kennari á Akranesi.
Jón Ingi komst heldur betur í hann krappann í október á síðasta ári eins og lesa má í þessari frétt.