Fimm fyrrum Íslandsmeistarar í holukeppni eru á meðal keppenda á Securitas-mótinu, Íslandsmótinu í holukeppni, sem fram fer á Garðavelli á Akranesi 21.-23. júní.
Um er að ræða þriðja mótið af alls fimm á Mótaröð þeirra bestu á keppnistímabilinu 2019.
Þrír fyrrum meistarar eru í karlaflokki og tveir í kvennaflokki. Rúnar Arnórsson úr GK mætir í titilvörnina líkt og Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR
Keppni hefst kl. 7:30 föstudaginn 21. júní.
Úrslit, rástímar og riðlar eru hér:
Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að keppendum er raðað upp fjögurra manna riðla.
Í karlaflokki eru 32 keppendur í alls átta riðlum. Sigurvegarinn úr hverjum riðli kemst í átta manna úrslit.
Í kvennaflokki eru keppendur alls 23. Riðlarnir eru því alls 6 og í einum þeirra eru þrír keppendur. Siguvegarnir úr hverjum riðli fara í átta manna úrslit ásamt tveimur keppendum sem eru með bestan árangur í 2. sæti.
Kristján Þór Einarsson úr GM hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari í holukeppni. Fyrst árið 2009 og í annað sinn árið 2017. Hann er meðal keppenda líkt og Arnór Ingi Finnbjörnsson úr GR sem sigraði árið 2011.
Í kvennaflokki er Þórdís Geirsdóttir úr Keili á meðal keppenda en hún hefur tvívegis sigrað á þessu móti.
Fyrst var keppt á Íslandsmótinu í holukeppni árið 1988 og mótið í ár það 32. frá upphafi. Fyrstu Íslandsmeistararnir í holukeppni voru þau Úlfar Jónsson og Karen Sævarsdóttir.
Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast fagnað þessum titli í karlaflokki eða fjórum sinnum. Í kvennaflokki hefur Ragnhildur Sigurðardóttir oftast sigrað eða sjö sinnum alls.
Meðalforgjöfin í karlaflokki er -0,4 og í kvennaflokki er meðalforgjöfin 3,6.
Að venju eru systkini, bræður og systur á meðal keppenda á Mótaröð þeirra bestu.
Ragnar Már Garðarsson og Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG eru bræður. Hulda Clara Gestsdóttir og Eva María Gestsdóttir úr GKG eru systur líkt og Ásdís Valtýsdóttir og Nína Margrét Valtýsdóttir úr GR. Systkinin Dagbjartur og Perla Sól Dagbjartsbörn eru á meðal keppenda á Securitas-mótinu. Perla Sól er jafnframt yngsti keppandinn er hún er fædd árið 2006. Dagbjartur Sigurbrandsson úr GR hefur sigrað á tveimur fyrstu mótum tímabilsins á Mótaröð þeirra bestu.
Atvinnukylfingurinn Ólafur Björn Loftsson úr GKG er á meðal keppenda en hann varð Íslandsmeistari í golfi árið 2009. Ólafur Björn og Kristján Þór Einarsson eru í sama riðli.
Flestir keppendur koma frá GR eða 16 alls, GKG er með 15 keppendur og GK er með 10.
Alls koma keppendur frá alls 9 klúbbum og eru 5 þeirra með keppendur í bæði karla – og kvennaflokki.