Aron Elvar Dagsson fær tækifæri til þess að sýna sig og sanna með U-15 ára landsliði Íslands í körfubolta á næstunni.
Skagamaðurinn er í U-15 ára landsliði Íslands sem tekur þátt á boðsmóti í Danmörku sem kallast COPENHAGEN-INVITATIONAL. Mótið fer fram í Farum rétt utan við höfuðborg Danaveldis.
Aron Elvar hefur á undanförnum árum og misserum lagt hart að sér til þess að komast í landsliðið. Sterkur kjarni leikmanna á hans aldri er til staðar á Akranesi og er liðið í fremstu röð á Íslandi.
Það er langt síðan að ÍA á leikmann í yngri landsliðum Íslands í körfubolta. Því ber að fagna og þrotlaus vinna forsvarsmanna KFÍA er að skila árangri.
Þess má geta að Dagur Þórisson, faðir Arons Elvars, lék með A-landsliði Íslands í körfubolta, rétt fyrir síðustu aldamót.