„Álmaðurinn er öðruvísi þríþraut í náttúruperlum Akraness“


Álmaðurinn fer fram miðvikudaginn 24. júlí á Akranesi en um er að ræða keppni í þríþraut. Keppnin fer fram í og við helstu náttúruperlur Akraness.

Keppt er í hjólreiðum, fjallgöngu/hlaupi, og sjósundi. CrossFit Ægir á Akranesi stendur á bak við keppnina í ár og sér um skipulag og skráningu.

Sævar Berg Sigurðsson er í teyminu sem sér um að skipuleggja Álmanninn.
„Álmaðurinn er öðruvísi þríþraut í náttúruperlum Akraness sem fólk ætti ekki að láta fram hjá sér fara,“ segir Sævar Berg.

„Keppni hefst við Jaðarsbakka þar sem að hjólað verður upp að Akrafjalli. Þar tekur við fjallganga eða hlaup, upp á toppinn á Háahnjúk. Keppendur fara síðan niður fjallið og á hjólin aftur og bruna niður að Langasandi. Þar tekur við 400 metra sjósund. Guðlaugin verður klár fyrir keppendur sem geta yljað sér í heitri laug að lokinni keppni,“ segir Sævar en keppnin hefur farið fram undanfarin ár og stækkað jafnt og þétt.

Sævar Berg Sigurðsson.

Sævar bendir á þann skemmtilega möguleika að taka þátt í liðakeppninni og skipta þar með greinunum þremur upp á liðsfélagana þrjá.

Um er að ræða einstaklingskeppni og einnig þriggja manna liðakeppni. Í liðakeppninni skipta liðsfélagarnir greinunum þremur á milli sín, einn hjólar, einn fer í fjallið og einn syndir.

Frekari upplýsingar og skráning fer fram á facebook síðu Álmannsins,.