Ragnheiður tekur við einu stærsta sundfélagi Svíþjóðar


Ragnheiður Runólfsdóttir hefur á undanförnum árum verið þjálfari hjá Sundfélaginu Óðni á Akureyri.

Skagakonan ætlar nú að söðla um og hefur hún ráðið sig sem yfirþjálfara hjá einu stærsta sundfélagi Svíþjóðar. Það er blaðamaðurinn Skapti Hallgrímsson á Akureyri sem greindi frá þessu.

Félagið heitir SO2 og er staðsett í Gautaborg. Ragnheiður hefur verið yfirþjálfari hjá Óðni á Akureyri undanfarin átta ár.

Ragnheiður er stödd í Svíþjóð þessa stundina þar sem hún er með SO2 liðinu á sænska unglingameistaramótinu. Hún tekur formlega við starfinu sem yfirþjálfari SO2 þann 1. ágúst.

Ragnheiður var í fremstu röð á heimsvísu í sundíþróttinni þegar hún var uppi á sitt besta. Hún er fædd árið 1966 á Akranesi og hóf sinn sundferil í Bjarnalaug við Laugarbraut.

Þar með bætist í Skagaflóruna á Norðurlöndunum þegar kemur að þjálfun afrekssundfélaga.

Skagamaðurinn Eyleifur Ísak Jóhannesson hefur náð frábærum árangri sem þjálfari hjá sundfélaginu í Álaborg – en þar hefur hann starfað í rúman áratug.