Pistill: Fráleit ákvörðun Skipulagsstofnunar


Aðsend grein frá Halldóri Jónssyni, íbúa á Akranesi:

Ákvörðun Skipulagsstofnunar, að breikkun þjóðvegar um Kjalarnes skuli sæta mati á umhverfisáhrifum, er með miklum ólíkindum og eru landsmenn þó ýmsu vanir úr þeirri áttinni á undanförnum árum.

Að eðlileg framþróun og löngu tímabær breyting á þjóðvegi er liggur um manngerð tún og mela skuli þurfa umhverfismat hefur ekkert með náttúruvernd eða varfærni í umhverfismálum að gera. Ákvörðun Skipulagsstofnunar er enn eitt dæmið um sívaxandi og óskiljanlega fyrirstöðu stofnunarinnar vegna framfaramála, einkum á landsbyggðinni, á síðustu árum. Augljóst er að stofnunin er fyrir löngu komin langt af leið.

Fráleitt er að sætta sig við þessa ákvörðun. Hún er verulega íþyngjandi og umfram allt veldur hún miklum töfum á lífsnauðsynlegri framkvæmd. Þessi ákvörðun er því dauðans alvara. Hún þarf hins vegar ekki að standa. Því verður ekki trúað að óreyndu að Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta á svæðinu nýti ekki lagalegan rétt sinn og reyni þannig að koma í veg fyrir yfirvofandi töf.

Halldór Jónsson.

Sem íbúi á Akranesi skora ég því á bæjarstjórn Akraness að kæra nú þegar þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort lög landsins og stjórnsýslan séu orðin óleysanlegur hnútur í byggðaþróun í landinu. Slík kæra leiðir líka í ljós hvort sveitarfélög, fyrir hönd íbúa sinna, teljast aðilar máls eða hvort sá kæruréttur sé einungis á hendi örfárra útvalinna sérfræðinga eða samtaka með falleg nöfn.

Halldór Jónsson, Akranesi.