Arnór skorar alltaf þegar lukkudrengirnir frá Skaganum mæta á leik


Arnór Smárason skoraði bæði mörk Lilleström í 2-1 sigri liðsins gegn Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um s.l. helgi.

Skagamaðurinn hefur leikið vel með Lilleström og er einn af lykilmönnum liðsins.

Arnór segir í viðtali við Verdens Gang að hann skori alltaf mörk þegar lukkudrengirnir af Skaganum eru viðstaddir á leik með honum. Þar vísar hann í Sverri Smárason yngri bróður sinn og Andra Júlíusson, sem er besti vinur Arnórs. Sverrir og Andri eru báðir leikmenn með Kára í 2. deildinni.

Arnór fagnaði fyrra marki sínu með því að taka boltann úr markinu og setti hann undir keppnistreyjuna að framanverðu. Hann setti líka þumalfingurinn upp í sig og gaf til kynna að hann ætti von á barni.

„Já það er rétt, við eigum von á barni í desember,“ bætti Arnór við í viðtalinu.

Hér fyrir neðan má sjá helstu atriðin úr leiknum.