Fótboltalið frá Kenía heimsækir Akranes – ÍA óskar eftir töskum og íþróttafatnaði fyrir drengina


Ungir knattspyrnumenn frá Got Agulu í Kenía verða á Akranesi á fimmtudag þar sem liðið mun taka þátt á æfingu hjá ÍA.

Leikmenn liðsins hafa á undanförnum misserum lagt hart að sér til að safna fé fyrir Íslandsheimsókninni. Liðið tekur þátt á Rey-Cup og er ferðalagið til Íslands mikil upplifun og lífsreynsla fyrir drengina.

Eins og áður segir ætlar liðið að taka þátt á æfingu hjá 4. flokki ÍA, heimsækja Guðlaugu og gera eitthvað fleira skemmtilegt á Akranesi.

Stuðningsmenn Got Agulu leynast víða og hefur Íþróttabandalag Akraness sett í gang söfnun til þess að efla innviði félagsins, en drengirnir komu með samtals tvær ferðatöskur með sér til Íslands.

Sjá má frá ævintýrum hópsins á facebook síðu ferðarinnar

Tækifærið hefur því verið nýtt til þess að safna fyrir þá fötum og gefa þeim framhaldslíf í heimkynnum strákanna.

„Ef þið eigið góð og nothæf íþróttaföt, íþróttaskó eða annað íþróttadót – eða bara almennt létt og góð föt og skó á krakka á öllum aldri þá tekur hópurinn glaður við þeim. Þetta þarf ekki endilega að passa á strákana sjálfa því þeir vilja gjarnan koma með gjafir til systkina sinna og fyrir skólann sinn. Ef þið eigið góðar ferðatöskur eða stórar tuðrur sem þeir geta pakkað fötunum í þá er það líka meira en vel þegið.

Tekið verður á móti varningi í Íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum til kl. 21:00 í kvöld miðvikudaginn 17. júlí og tl kl. 15:00 á morgun, fimmtudag,“ segir í tilkynningu frá ÍA.