„Sýnum stelpunum stuðning í verki, mætum á völlinn!“


Sigurður Arnar Sigurðsson, stuðningsmaður ÍA, og skólastjóri Grundaskóla á Akranesi skrifaði áhugaverðan pistil á heimasíðu Knattspyrnufélagsins. Þar hvetur Sigurður Arnar Skagamenn til þess að sýna kvennaliði ÍA stuðning í verki – en mikið hefur gengið á hjá hinu unga liði á undanförnum vikum. ÍA mætir liði Tindastóls í dag á Akranesvelli kl. 18:00 í Inkasso-deild kvenna.

Kvennaknattspyrna hefur verið í mikilli sókn síðustu ár, ekki aðeins á Íslandi heldur um allan heim. Nýtt og betra hugarfar er sem betur fer vaxandi þar sem stelpur njóta aukinnar virðingar í íþrótt sinni til jafns við stráka. Þetta sást kannski best á nýloknu heimsmeistaramóti í Frakklandi þar sem glæsilegir íþróttamenn sýndu leikni sína. Við erum stödd í vegferð þar sem ný kvennalið spretta upp og um leið eykst fjármagn og betri umfjöllun.

Við Skagamenn höfum lengi staðið í uppbyggingarstarfi. Eftir mörg sigursæl ár sem frumkvöðlar í kvennaknattspyrnu hefur hlutverk okkar lengstum verið að spila í næstefstu deild eða stoppa stutt í þeirri efstu. Við höfum á köflum átt góð lið en misst frá okkur leikmenn allt of unga. Mikil eftirspurn er eftir sterkum leikmönnunum og við þurfum að halda vel á hlutum ef við eigum ekki að missa fleiri efnilega leikmenn. Ekki hefur enn tekist að mynda ákveðið jafnvægi þar sem lið okkar tekur næsta skref og spilar í deild þeirra bestu.

Lykill að því að ná árangri er að huga vel að grasrótinni. Byggja markvisst upp afrekslið sem er góð fyrirmynd fyrir þá sem á eftir koma. Í dag er staðan erfið en við höfum á einu ári tapað sex byrjunarliðsmönnum og fjórir til viðbótar eru á förum erlendis vegna náms. Nú í vikunni hættu þjálfararnir síðan störfum. Hvaða lið bognar ekki við að missa slíkan liðsstyrk?

Staðreyndin er að inn á völlinn hleypur nú ungt en mjög efnilegt meistaraflokkslið sem er að meðalaldri um 18 ár. Við teflum fram einu yngsta byrjunarliði í meistaraflokki á Íslandi. Kjarna ungra leikmanna sem geta náð langt ef vel er á spilum haldið og stelpurnar fá góðan stuðning á vellinum. Það er hins vegar sorglegt að sjá að þrátt fyrir að þetta unga keppnislið okkar sé að standa sig nokkuð vel þá mæta alltof fáir á völlinn til að styðja þær og hvetja til dáða. Þetta áhugaleysi á ekki bara við hér á Akranesi heldur víða um land í öllum deildum. Varðandi þá staðreynd verða KSÍ, einstök íþróttafélög, leikmennirnir sjálfir og styrktaraðilar að skoða saman.

Tækifæri okkar er núna, kæru Skagamenn.

Meistaraflokkur kvenna er nú um miðja töflu í harðri baráttu í Inkasso deildinni. Stutt í toppliðin en einnig stutt niður á botninn. Við eigum raunhæfa möguleika á að ná upp öflugu kvennaliði en það gerist ekki nema með markvissri og metnaðarfullri þjálfun, góðri keppnisaðstöðu og miklum stuðningi. Tveir af þessum þáttum eru að mestu til staðar en nokkuð skortir á þann þriðja, þ.e. að fólk fjölmenni á völlinn og styðju stelpurnar í verki.

Nú þurfum við Skagamenn að reima fast knattspyrnuskóna, þétta raðirnar og stefna hátt. Fjölmennum á völlinn og styðjum ÍA til sigurs. Þáttur stuðningsmanna getur skipt sköpum í hver útkoman verður í haust þegar keppnistímabílinu lýkur.

Áfram ÍA.
Sigurður Arnar Sigurðsson