Fundum ekki réttu leikmennina til að styrkja liðið segir Unnar Þór þjálfari ÍA


„Markmiðið það sem eftir eru tímabils er auðvitað að bæta liðið, fá stelpurnar til að hafa trú á verkefninu og þannig að halda liðinu uppí Inkasso deildinni,“ segir Unnar Þór Garðarsson þjálfari kvennaliðs ÍA í knattspyrnu. Unnar Þór og Aron Ýmir Pétursson tóku nýverið við sem þjálfarar liðsins eftir að þjálfarateymi ÍA sagði upp störfum.

Unnar Þór segir að verkefnið sem framundan er verði spennandi og skemmtilegt.

„Leikmannahópurinn er ungur og er því með mikið rými til bætinga og allt er til staðar til að reyna að koma liðinu á gott flug. Verkefnið í huga okkar þjálfaranna verður alltaf að gera leikmennina betri í fótbolta og þannig styrkja liðið.“

Margir hafa velt því fyrir sér afhverju ÍA náði ekki að styrkja liðið með nýjum leikmönnum í leikmannaglugganum sem er nú lokaður. Unnar Þór segir að það hafi margt verið reynt í þeim efnum.

„Við Aron Ýmir komum seint inn í júlí sem þjálfarar og það var ekki mikill tími eftir af „leikmannaglugganum“ sem lokaði 1. ágúst. Það var alltaf ljóst að það yrði erfitt að fá réttu leikmennina inn í liðið. Þá er ég að tala um leikmenn sem myndu lytfta upp „tempóinu“ á æfingum, gera stelpurnar í kringum sig betri og þar með liðið líka. Þegar við tókum við fór af stað mikil vinna. Ég, Aron Ýmir og Sigurður framkvæmdastjóri fengum góðan stuðningi frá stjórn. Öll möguleg sambönd voru virkjuð bæði hér heima og erlendis og allt reynt til að finna leikmenn sem hentuðu í verkefnið en við enduðum uppi tómhent. Ástæðan fyrir því að við náðum ekki í leikmenn var sennilega fyrst og fremst það að við höfðum ekki nægan tíma til að vinna verkefnið. Sem sagt að finna réttu leikmennina, við fengum fullann stuðning frá stjórn og framkvæmdastjóra og mikil vinna lögð í þetta alveg fram á síðustu mínútu.“

Þurfum að sýna stelpunum stuðning


Unnar Þór segir að staðan í knattspyrnunni kvenna megin á Akranesi sé að mörgu leiti góð.

Meistaraflokkur er skipaður ungum leikmönnum sem vilja bæta sig og hafa mikið rými til og mikill og góður vilji innan félagsins til að gera enn betur í þjálfun og aðbúnaði þeirra. Það eru efnilegar stelpur að koma upp úr yngri flokkunum á næstu árum, vel staðið að þjálfun yngri flokka eins og ég þekki starfið. Það er hinsvegar alveg ljóst að við þurfum alltaf að vera í naflaskoðun og umræðu um það hvernig við getum gert betur fyrir stelpurnar okkar í öllum aldursflokkum. Það er bara eðli félaga sem vilja bæta sig og sitt starf. Stærsta breytingin sem þarf að gerast núna er að mínu mati sú að við þurfum að sýna stelpunum okkar mikinn stuðning með því að mæta á völlinn og hvetja þær áfram. Þær eiga það svo sannarlega skilið, hafa og eru að leggja mikið á sig til að verða betri í því sem þeim finnst skemmtilegast að gera, að spila fótbolta,“ sagði Unnar Þór Garðarsson þjálfari kvennaliðs ÍA í knattspyrnu.

En hver er Unnar Þór Garðarsson?

„Ég er fæddur á Húsavík í febrúar 1978 og ólst þar upp, á einn eldri bróðir. Ég byrjaði snemma að æfa fótbolta og handbolta, var í handbolta til 17 ára aldurs en hélt áfram að æfa fótbolta, hætti því svo 26 ára og snéri mér alfarið að þjálfun. Var byrjaður að þjálfa bæði handbolta og fótbolta 16 ára gamall. Skagatengingin er mikil þar sem að eiginkonan mín, Áslaug Guðmundsdóttir, er fædd á Akranesi og við eigum tvö börn, Sigrúnu Eglu og Halldór Emil.

Unnar Þór er íþróttafræðingur að mennt, og útskrifaðist hann árið 2004 frá Laugarvatni.

„Ég kláraði UEFA A þjálfaragráðu 2011 og hef starfað við íþróttakennslu í Borgarhólsskóla frá útskrift og knattspyrnuþjálfun frá 2000 hjá Völsungi á Húsavík, fyrir utan eitt sumar með ÞórKA í Pepsi deild kvenna 2015.“

Þjálfarreynsla Unnars Þórs er mikil en hann hefur þjálfað alla aldursflokka, frá 8. fl. uppí meistarflokk kvenna og karla.

„Ég var yfirþjálfari hjá Völsungi í 1 ár og hef líka verið að þjálfa Metabolic á Húsavík. Við hjónin erum enn að reka Metabolic áfram á Húsavík,“ sagði Unnar Þór Garðarsson við skagafretir.is